Þeir hjá Toyota ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Fundur okkar með Minoru Takayama skyldi nefnilega haldinn í skosku hálöndunum, á heimavelli hins breska Land Rover. Þar sem sjálf drottningin sást reglulega aka um á öldnum Defender.

Toyota-menn eru því greinilega fullir sjálfstrausts með nýjan Krúser og okkar verkefni var að meta hvort það var byggt á bjargi eða sandi.

Bækistöð okkar næstu tvo daga var í Ballater í Apardjónskíri eins og við kölluðum Aberdeen í eina tíð. Þangað komum við þegar langt var liðið á daginn.

Bærinn er í skosku hálöndunum, í jaðri Cairngorms-þjóðgarðsins. Í næsta nágrenni er Balmoral kastali, þar sem Elísabet II Bretadrottning lést í september í fyrra. Bærinn er sjarmerandi og alveg sérstök ró yfir honum.

Þeir hjá Toyota ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Fundur okkar með Minoru Takayama skyldi nefnilega haldinn í skosku hálöndunum, á heimavelli hins breska Land Rover. Þar sem sjálf drottningin sást reglulega aka um á öldnum Defender.

Toyota-menn eru því greinilega fullir sjálfstrausts með nýjan Krúser og okkar verkefni var að meta hvort það var byggt á bjargi eða sandi.

Bækistöð okkar næstu tvo daga var í Ballater í Apardjónskíri eins og við kölluðum Aberdeen í eina tíð. Þangað komum við þegar langt var liðið á daginn.

Bærinn er í skosku hálöndunum, í jaðri Cairngorms-þjóðgarðsins. Í næsta nágrenni er Balmoral kastali, þar sem Elísabet II Bretadrottning lést í september í fyrra. Bærinn er sjarmerandi og alveg sérstök ró yfir honum.

Skosku hálöndin minna um margt á það íslenska og eru óskaplega falleg.

Ný viðhorf hjá Toyota

Það hefur enginn efast um það í áratugi að Toyota eru vel smíðaðir bílar og með ótrúlega lága bilanatíðni. En það kom langt tímabil þar sem bílarnir voru óspennandi. Hönnuðirnir tóku litla áhættu og því voru bílar Toyota of oft óáhugaverðir.

Kōji Satō tók við sem forstjóri Toyota fyrir ári síðan. Hann sagði af því tilefni að Toyota smíðaði áreiðanlega bíla og hagkvæma. En það væri ekki dýrara að smíða fallega bíla og það yrði nú gert.

Nýr bíll frá grunni

Toyota Land Cruiser 250 tekur í haust við af 150 bílnum. Þetta er fimmta kynslóðin í þessari línu en hún kom fyrst á markað árið 1985 með 70 bílnum.

Fjórða kynslóðin, 150 bíllinn, hefur verið framleidd frá árinu 2009 og því var sannarlega kominn tími á breytingar. Ekki síst í ljósi þess að 150 bíllinn er áþekkur 120 bílnum, þriðju kynslóðinni, sem kom á markað 2002.

En þetta er ekki breyting heldur bylting. Við smíði hans er horft til baka, farið í upprunann í bland við nútímahönnun. Bílar sem eiga sér sögu eru skemmtilegri en aðrir bílar, þeir hafa sál.

Skoska beljan tók vel á móti nýjum Land Cruiser og lét bílana alveg ósnerta.

Hinn eilífi Krúser

Í hugum flestra er Land Cruiser einn fárra alvöru jeppa en frumkrafan er að ökutækið sé byggt á grind. Það gerir jeppann nær ódrepandi en langflestir Krúserar, sem hafa verið

fluttir inn til landsins eru enn á götunni, eða yfir 80% þeirra.Nýi 250 bíllinn er byggður á nýrri tegund af grind, svipaðri þeirri sem er í 300 jeppanum sem er ekki seldur í Evrópu.

Sú nýja er um 50% sterkari og stífari en í eldri gerð og bíllinn í heild 30% stífari, sem bætir aksturseiginleika bílsins í samanburði við eldri bíl og eykur tilfinningu ökumannsins fyrir bílnum.

Æfingaraksturinn hefst

Öllum Land Cruiserunum fjórum, í Evrópu allri, var búið að stilla upp fyrir framan Ballater Arms gistihúsið þar sem við dvöldum. Stundvíslega klukkan 8.00, deginum eftir að við komum, hófst aksturinn á hinum nýja jeppa.

Við vorum þrír saman, en ásamt mér var Gísli Freyr Valdórsson frá Morgunblaðinu og Páll Þorsteinsson sendiherra Toyota á Íslandi. Ég fékk heiðurinn að byrja. Það getur tekið tíma að venjast stjórnbúnaði í nýjum bíl. En það fór strax vel um okkur og ekki leið á löngu þar til mér leið eins og ég hefði fátt annað gert en að keyra Land Cruiser.

Stýrið var réttu megin í bílnum en við þurftum vitanlega að aka á öfugum vegarhelmingi. Yfir morgunkaffinu hafði ég lesið um náin tengsl Sir Winstons Churchill við Balmoral.

Hinn mikli meistari eyddi töluverðum tíma í Balmoral kastala og á landareign konungsins, fyrst 27 ára gamall um mánaða skeið. Ásamt því að vera með Churchill í anda og reglunni að vera hægra megin, á veginum og lífinu, þá var ég næstum búinn að aka framan á næsta bíl sem ég mætti.

Eftir það hugsaði ég til blessuðu vinstri ríkisstjórnarinnar á Íslandi í hverri beygju. Við vorum því aldrei í hættu á eftir og er þá ríkisstjórnin ekki alveg gagnslaus.

Við fengum einnig að taka í Toyota J40 (1960-1984/1991) og J70 (frá 1984).

Þægilegur akstur

Aksturinn á skosku vegunum, oft þröngum og erfiðum, var mjög þægilegur. Nær árlega síðustu 15 árin hef ég ekið eldri gerðinni, 150 bílnum, í nokkra daga í senn við ýmiss konar aðstæður.

Auðvitað er slíkur samanburður engin nákvæmnisvísindi. En mér fannst aksturinn á þeim nýja mun þægilegri, hann tók hraðar við sér og ég vissi alltaf nákvæmlega hvar ég hafði bílinn.

Vélin í bílnum er samt jafn stór en það munar um átta þrepa skiptinguna og rafdrifið aflstýrið, sem hvort tveggja var ekki í þeim gamla. Tilfinning var strax sú að sá nýi væri mun stærri en sá gamli.

Tölurnar staðfesta það. Hann er tíu sentimetrum lengri, 9,5 sentimetrum breiðari og 2 sentimetrum hærri. En tilfinning byggist líka á því að línurnar eru harðari og maður sér framendann betur við aksturinn.

Minoru Takayama er verkfræðingurinn sem við áttum fund við, en hann er einn þeirra sem hönnuðu nýjan Land Cruiser 250.

Þrautabrautin

Skosku hálöndin buðu upp á akstur á við allar hugsanlegar aðstæður. Á malbikuðum vegum, malarvegum, í drullu, í snjó – örlitlum reyndar – og á þrautabraut.

Það er ekki oft sem maður fer á dýrari bílum út í alvöru torfærur. Við fengum tækifæri til þess. Brautin var vel gerð og nokkuð erfið. Það rigndi mikið og því var drullan hál og aðstæður minntu mjög á íslenska sumarið.

Bíllinn var búinn skriðbúnaði (e. Crawl control) sem hefur verið valbúnaður um nokkurt skeið í Land Cruiser. Ég hafði ekki prófað hann áður, hvorki í Land Cruiser né öðrum jeppa.

Ég prófaði bæði að gefa inn sjálfur og láta bílinn um það. Ég fór mun hraðar yfir þegar ég gaf sjálfur inn, bílinn spólaði hins vegar frekar og háskinn var því kannski aðeins meiri.

Þegar ég notaði skriðbúnaðinn fór bílinn hægt yfir en mjög örugglega. Það eina sem ég gerði var að ákveða hraðann, sem er í öllum tilfellum lítill, og stýra. Það sem kom mér mest á óvart var að hann spólaði ekkert.

Er ég ekki frá því að þetta sé í fyrsta sinn sem bíll móðgar mig. Mér til varnar þá fór ég síðast í alvöru torfærur í Hafralónsá haustið 2011.

Framendinn í mörgum hlutum

Framendinn og afturendinn á nýjum Land Cruiser 250 er gerður með torfærur í huga, að þér takist síður að reka bílinn upp undir á leið fram af árbakkanum, yfir stærri steina og á leið yfir harðan snjóskaflinn.

Það er algjörlega óþolandi þegar bílaframleiðendur hafa hluti sem geta skemmst í stórum og fáum hlutum. Hvort sem það eru stuðarar, fjöðrunarbúnaður eða annað. Ef eitthvað brotnar eða bilar þá þarf að skipta um stóran hluta bílsins með ærnum kostnaði.

Framendinn á nýjum Land Cruiser er hannaður með það í huga að ökumaðurinn sé ekki í fremstu röð. Hann er í sex hlutum sem auðvelt er að skipta út. Þetta er mikill hvati til að fara út að leika.

Nýr Land Cruiser er gjörbreyttur og mun jeppalegri í útliti en forverinn sem nú kveður eftir 15 ára þjónustu

Vélarnar

Í fyrstu verður bílinn boðinn með uppfærðri 2,8 lítra díselvélinni með túrbínu sem skilar 204 hestöflum. Það munar mikið um betri sjálfskiptingu og ég fékk aldrei á tilfinninguna að aflið væri ekki nóg.

Á næsta ári kemur svokölluðum mild-hybrid útgáfa. Þá bætist við vélina rafmótor sem hleður sig í akstrinum. Sú verður aðeins snarpari þó við höfum ekki séð neinar afltölur enn.

Verðið

Land Cruiser 250 kemur í mörgum útgáfum líkt og áður. Hann er betur búinn en áður og gerðirnar nefnast GX, GX Plus, VX, Luxury og First Edition.

Bílinn kostar frá 16,5 milljónum upp í 25 milljónir króna. Dýrastur er First Edition bíllinn en sá kemur með öllum búnaði. Hann er að auki aðeins frábrugðinn þeim hefðbundna en hringlaga framljósin er helst vert að nefna.

Dómurinn

Land Cruiser 250 er hinn ágætasti jeppi og aksturinn áreynslulaus og þægilegur. Hann er eiginlega akkúrat það sem hann á að vera. Ekki skemmdi félagsskapurinn við aksturinn fyrir.

Þrennt kom mér þægilega á óvart. Hann er laglegri í eigin persónu en á mynd og eru myndirnar þó góðar. Hann er þýðari í akstri en eldri bíll og er þar að þakka uppfærðri vélinni og nýrri skiptingu.

En það sem kom mér mest á óvart var skriðbúnaðurinn. Óreyndur ökumaður getur auðveldlega farið yfir töluverðar torfærur bara með því að stýra.

Ég ætla að leyfa mér að veðja á að þessi bíll verði metsölubíll á Íslandi.

Umfjöllunin birtist í Bílum, sérblaði Viðskiptablaðsins, sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið blaðið hér.