Nú, þegar rétt rúmur mánuður er til jóla, hafa borgir og bæir víða um heim klætt sig í hátíðarbúninginn. Íslendingar þurftu, eins og flestir aðrir jarðarbúar, að sætta sig við að komast ekki í borgarferð fyrir síðustu jól vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Því má ætla að uppsöfnuð þörf hafi skapast meðal landsmanna og mikið verði um slíkar ferðir nú þegar búið er að rýmka fyrir ferðalög milli landa. Viðskiptablaðið tók því saman nokkrar stórborgir sem allar eiga það sameiginlegt að gera jólunum hátt undir höfði.

New York

Áður en Covid-19 faraldurinn fór á stjá og lokað var fyrir ferðalög til Bandaríkjanna var New York gífurlega vinsæll áfangastaður meðal Íslendinga allt árið um kring. Bólusettir landsmenn geta tekið gleði sína á ný þar sem landamæri Bandaríkjanna hafa verið opnuð fyrir bólusettum ferðamönnum. Margir renna því eflaust hýru auga til þess að heimsækja New York í kringum hátíðarnar, enda sjaldan meira varið í að heimsækja borgina en þegar borgin er komin í jólabúninginn. Ávallt er mikil viðhöfn er kveikt er á ljósum hins fræga jólatrés á Rockefeller-torgi, en á torginu er hægt að renna sér á skautum meðan dáðst er að trénu bjarta. Fáar borgir bjóða upp á meira úrval verslana en New York og því tilvalið að afgreiða jólakaupin þar í borg. Icelandair hefur á ný hafið daglegt flug til New York og því leikur einn að ferðast frá Íslandi til New York.

Berlín

Þjóðverjar eru þekktir fyrir að slá upp notalegum og spennandi jólamörkuðum, enda hefur verið hefð fyrir slíkum mörkuðum í landinu frá miðöldum. Berlínarbúar slá svo sannarlega ekki slöku við og í kringum hátíðarnar má víða í borginni finna jólamarkaði. Á mörkuðunum má nálgast handunnar gjafavörur, hefðbundinn þýskan mat og hátíðlega drykki, áfenga sem óáfenga. Helsta verslunarsvæði Berlínar, Potsdamer Platz, er á ári hverju breytt í „Vetrarheim" um tveggja mánaða skeið í kringum hátíðarnar. Er þar m.a. komið upp 12 metra hárri brekku sem hugrakkir geta rennt sér niður á sleða. Aðrir geta látið sér nægja að renna sér á skautasvelli sem einnig er slegið upp. Bæði Icelandair og Play fljúga til Berlínar á hinn nýja og glæsilega Brandenburg flugvöll, sem ekki var tekinn í gagnið nema tæpum áratug á eftir áætlun.

Kaupmannahöfn

Höfuðborg frænda vorra í Danmörku er sígildur áfangastaður í borgarferðum Íslendinga og er óhætt að mæla með ferð þangað ef ætlunin er að komast í hátíðarskap. Segja má að jólaandinn fari á flug í borginni þegar Jdagurinn svokallaði er haldinn hátíðlegur. Markar sá merkisdagur, sem ávallt fer fram fyrsta föstudag í nóvember, upphafsdag þess er jólabjórinn frá Tuborg fer í sölu í borginni. Við það tilefni er slegið upp miklum hátíðarhöldum þar sem Tuborg-jólasveinar dreifa jólabjórnum ofan í gesti og gangandi á Strikinu. Um miðjan nóvember opnar Tívolíið í borginni dyr sínar fyrir almenningi eftir að búið er að skreyta garðinn hátt og lágt með jólaskrauti. Á kvöldin er ljósadýrð skreytinganna mikið sjónarspil. Enginn vandi er að ferðast frá Íslandi til Kaupmannahafnar enda bjóða bæði íslensku millilandaflugfélögin, Icelandair og Play, upp á flug þangað. Fullbólusettir einstaklingar þurfa litlar áhyggjur að hafa þar sem þeim sem geta sýnt fram á vottorð þess efnis er frjálst að fara inn í landið án þess að þurfa að fara í sóttkví eða sýna fram á neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku.

Prag

Höfuðborg Tékklands er rétt eins og Berlín þekkt fyrir spennandi jólamarkaði þar sem ferðamenn geta kynnst hefðum, menningu og matarvenjum heimafólks. Markaðirnir eru staðsettir víða um borgina en sá stærsti og glæsilegasti er við aðaltorgið í gamla bænum. Þar er ýmislegt um að vera til dægrastyttingar og getur fólk m.a. skellt sér á skauta og sötrað á jólaglögg að því loknu. Prag sker sig úr öðrum borgum sem hér eru nefndar til leiks þar sem ekki er boðið upp á beint flug til borgarinnar frá Íslandi, en margir láta þó eina millilendingu ekki koma í veg fyrir að ferðast þangað sem hugurinn girnist.

Nánar er fjallað um málið í Jólagjafahandbók, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .