Af þeim þremur merkjum sem kynntu bíla sína á Íslandi árið 2023 var Smart með flesta selda bíla eða rúmlega 80 talsins á árinu 2023. Merkin BYD og ORA kynntu einnig sína bíla hér á landi á síðasta ári.

Smart er 25 ára gamalt vörumerki sem hefur fengið endurnýjun lífdaga síðustu ár þar sem Mercedes-Benz og Geely tóku við eignarhaldi og sjá því um hönnun og framleiðslu á öllum smart bílum. smart bílarnir eru einnig fáanlegir í BRABUS ofurútfærslu.

Askja tók við umboði Smart fyrr á árinu og eru fleiri nýjar tegundir frá framleiðandanum væntanlegar á næstu árum, þar á meðal smart #3 árið 2024.

„Það fylgja því miklar áskoranir en einnig mikil skemmtun að kynna nýtt vörumerki á markað. Það sem gerir þetta verkefni enn skemmtilegra er að í raun er Smart gamalt merki sem kemur nú í gjörbreyttri mynd,“ segir Símon Orri Sævarsson, sölustjóri.

Frá því að Smart #1 var kynntur á Íslandi og í Evrópu hefur hann sópað að sér verðlaunum, en bíllinn hlaut meðal annars Red Dot hönnunarverðlaun og iF-Design verðlaun fyrir framúrskarandi vöruhönnun. Bíllinn hlaut einnig Gullna stýrið í Þýskalandi fyrir besta bílinn á undir 50.000 evrur og var valinn besti bíllinn á rafbílaverðlaunum What Car? Þar að auki dúxaði Smart #1 allar öryggisprófanir sem gerðar voru á bílnum.

Á árinu kynnti smart einnig Hello Smart appið, sem er einstaklega notendavænt snjallsímaforrit þar sem hægt er að fylgjast með ítarlegum rauntímaupplýsingum á borð við drægni, hleðslustöðu, staðsetningu og þrýsting í hjólbörðum ásamt alls konar virkni sem þörf er á.