Skemmtiferðaskipið Icon of the Seas kom til Miami í Bandaríkjunum fyrr í mánuðinum.

Skipið, sem er í eigu Royal Caribbean International, er nú stærsta skemmtiferðaskip veraldar. Það er 365 metra langt og tæplega 50 metra breitt. Það rúmar allt að 10 þúsund manns, þar af um 7.600 farþega.

Þilförin eru tuttugu talsins og eru 18 af þeim aðgengileg fyrir gesti. Í skipinu eru 40 veitingastaðir, sjö sundlaugar, sex vatnsrennibrautir, þrír tónlistarsalir, spilavíti og skautasvell, svo eitthvað sé nefnt.

Skipið er smíðað í Meyer Turku skipasmíðastöðinni í Finnlandi og kostaði um 2 milljarða dollara eða um 270 milljarða króna.

Skipið heldur í dag í jómfrúarferð sína, sem er viku sigling um Karíbahafið. Vikusigling í tveggja manna meðalstóru herbergi kostar um 250 þúsund krónur á mann. Dýrasta svítan, sem er í raun íbúð á þremur hæðum, kostar tæplega 14 milljónir.