Sala á koníaki, rommi, gini og vodka hefur dregist saman það sem af er ári í Bandaríkjunum.

Á fyrstu tveimur mánuðum ársins dróst sala á koníaki saman um 5% miðað við sama tímabil í fyrra. Sala á rommi dróst saman um 4,5% og samdráttur í sölu á gini nam ríflega 3%. Minni samdráttur varð í sölu á vodka eða um 0,5%. Tequila virðist aftur á móti verða tískudrykkurinn í Bandaríkjunum, því tequila-sala jókst um 6,4% á fyrstu tveimur mánuðum ársins.

Í frétt Wall Street Journal segir að eftir mikla söluaukningu áfengra drykkja í heimsfaraldrinum sé staðan að verða svipuð og fyrir faraldurinn. Fólk sé búið að minnka heimadrykkjuna enda hafi áfengi hækkað töluvert í verði vegna verðbólgu undanfarin misseri.