Como vatn er einn af fallegustu stöðunum á Ítalíu. Þeir eru reyndar óskaplega margir, fallegustu staðirnir á Ítalíu. Vatnið er 146 ferkílómetrar að stærð og aðeins um 40% af stærð Garda-vatns, sem er einmitt líka einn af fallegustu stöðunum á Ítalíu.

Veðrið er þokkalegt frá apríl en hitastigið er ekki orðið öruggt fyrr en í maí. September er að jafnaði góður en október er aðeins meira hættuspil. Sumarið er frekar milt en hitinn er hæstur 26 gráður í júlí – að meðaltali. Vatnið er í aðeins í 41 mínútna fjarlægð frá Mílanó ef ferðast er með lest og um 45 mínútna akstursfjarlægð frá Malpensa flugvellinum sem Icelandair og Easy Jet lenda á.

Hér skaltu búa

Það er töluverð kúnst að finna gistihús sem henta við Como vatn. Ítölsk hótel eru stundum svolítið illa viðhaldin, fallegar á litmyndum en þegar lagst er á rúmið koma sprungurnar í ljós. Þá er ekki verra að hafa drukkið hálfa flösku frá Piemonte, eða svo.

Mandarin Oriental

Eitt af fallegustu hótelunum við vatnið er Mandarin Oriental hótelið. Það er austan megin við vatnið, rétt norður af bænum Como eða í um 15 mínútna siglingu, á þokkalegum bát. Hótelið er fyrsta flokks og í raun yfir engu að kvarta – nema ef til vill verðinu. En maður fær víst það sem maður borgar fyrir.

Hótelherbergin eru allt frá því að vera þokkaleg í að vera dásamleg. Útsýnið frá hótelinu verður varla betra. Það er bæði inni- og útisundlaug auk stærstu heilsulindarinnar á svæðinu. Veitingastaðurinn er alveg ágætur sem og barinn. Svo er það sem mestu skiptir. Tveir hótelbátar af bestu gerð til umráða fyrir hótelgesti.

Aðalhúsið er höllin Villa Roccabruna sem var byggt á átjándu öldinni. Þar samdi Vincenzo Salvatore Carmelo Francesco Bellini tvær af sínum þekktustu óperum, La Sonnambula og Norma. Bellini, sem ekki má rugla við feneyska Bellini sem hinn ágæti kampavínsdrykkur er nefndur eftir, var vel metinn.

Verdi, Wagner (en honum líkaði við fáa nema sjálfan sig) og Chopin voru meðal aðdáenda. Höllin var endurgerð á árunum 1827-1829 þegar það var í eigu óperusöngkonunnar Guiditta Pasta. Mandarin hótelkeðjan endurgerði hótelið 2019 þegar það var opnað.

Hilton Lake Como

Hilton hótelin eru almennt ekkert sérstök nema á stöku stað. Einn þessara stöku staða er Como vatn. Hótelið, sem opnaði árið 2018, er ágætlega staðsett rétt fyrir utan Como bæinn og því í göngufæri við allt það helsta.

Herbergin eru ekki ítölsk heldur amerísk og því af stærri gerðinni. Allt er hið snyrtilegasta og þjónustan eins og best verður á kosið. Það sem stendur upp úr, í orðsins fyllstu merkingu, er sundlaugin og veitingastaðurinn á efstu hæð hótelsins. Sundlaugin er stórfín, veitingastaðurinn ekki síðri og útsýnið frábært.

Þetta skaltu skoða og gera

Lífið við vatnið er einfalt og afslappað. Helstu verkefni dagsins eru að liggja við sundlaugarbakkann, fara í bátsferð og snæða kvöldverð. En þó er eitt og annað sem er hægt að gera. Og svo er auðvitað lítið mál að skreppa til Mílanó eða yfir til Lugano í Sviss.

Funicolare lestin

Rétt fyrir utan Como bæinn er lest sem liggur upp allshlíðina til bæjarins Brunate. Frá bænum er um 2 km stígur upp að vitanum Volta. Þetta er um hálftíma ganga og hækkunin er um 150 metrar svo hún reynir nokkuð á. Sérstaklega á heitari dögum.

Útsýnið úr vitanum er stórkostlegt. Á leiðinni til baka er gráupplagt að setjast á einhvern af veitingastöðunum eða börunum í Brunate.

Sigling til Bellagio

Það er nauðsyn að fara í siglingu yfir vatnið. Það eru tvær leiðir til þess, ferjan eða leigja bát. Báðir kostir eru góðir en sá fyrri mun ódýrari. Skemmtileg leið og ágætur áfangastaður er leiðin til Bellagio. Ferðin með ferjunni er klukkutími og örutíu mínútur. Hraðbátur nær þessu á innan við klukkutíma.

Bellagio er lítill og fallegur bær en oftar en ekki fullur af túristum. Það er því ráð að skipuleggja ferðina og panta á veitingastað áður.

Como bærinn

Bærinn er lítill og notalegur. Þar er öll helstu ítölsku tískumerkin að finna og ágætt úrval veitingastaða. Skemmtilegasta svæðið er milli vatnsins og gömlu borgarmúranna, Porta Torre, sem eru frá 12. öld. Í gamla bænum eru helstu veitingastaðirnir og verslanirnar.

Kirkja Heilagrar Maríu er ein fallegasta byggingin í bænum. Kirkjan er björt að innan, ólíkt þeim mörgum, og þessi virði að líta inn. Í kringum kirkjuna er þónokkurt líf. Það er einnig ýmislegt að finna fyrir yngri kynslóðina. Tívolí við vatnið, dótabúðir og ísbúð á hverju horni.