Ímyndaðu þér hversu þægilegt það væri að vera á ferðalagi í New York og í stað þess að bíða flautandi á umferð alla leið út á JFK-flugvöll til að fara í flugið heim, þá væri hægt að stíga um borð í þyrlu sem myndi ferja þig frá Manhattan beint að fluginu þínu.

Á sjötta, sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar var þetta hægt.

Árið 1949 var þyrluflugfélagið New York Airways stofnað og var með höfuðstöðvar sínar á LaGuardia-flugvellinum í New York. Til að byrja með var það einungis hugsað sem póst- og fraktflugfélag en fljótlega fór það að taka farþega um borð.

Þyrluþjónustan varð ótrúlega vinsæl meðal ferðamanna en hún bauð upp á hraða, fallega og ódýra leið til að komast út á flugvöll. Það þótti mun hagkvæmara að fara með þyrlu út á flugvöll en fargjöldin voru líka talin mjög sanngjörn.

Sumarið 1953 var New York Airways með daglegt áætlunarflug á milli þriggja stærstu flugvalla í New York. Til að byrja með bauð það upp á 16 flug á dag og voru þau öll með 90 mínútna millibili. Ferðirnar urðu vinsælar fyrir fallega útsýnið en flugmennirnir flugu fram hjá Frelsisstyttuna og var einnig frábært útsýni af Manhattan-eyjunni.

Þyrlurnar fóru svo að fljúga með 30 mínútna millibili og kostaði stakt far um 7 dali en 10 dalir fyrir báðar leiðir. Farþegar gátu farið frá JFK-flugvellinum í þyrluna og voru lentir á þyrlupalli Pan Am-byggingarinnar, sem var aðalstoppistöðin á Manhattan, á aðeins sjö mínútum.

New York Airways ferjaði 8.758 farþega fyrsta árið en þegar komið var á tíunda árið var farþegafjöldinn kominn í 250 þúsund.

Það voru þó ekki allir ánægðir með áætlunarflug New York Airways og vöruðu margir við þeim hættum sem gætu stafað af því að vera með fljúgandi strætisvagn yfir stórborg.

Pan Am-byggingin sem tók á móti þyrlunum var heppilega staðsett beint fyrir ofan Grand Central-lestarstöðina.
© Wikimedia Commons (Wikipedia)

Þann 16. maí 1977 urðu þær áhyggjur að veruleika þegar lendingarbúnaður á einni þyrlu flugfélagsins bilaðist sem varð til þess að þyrlan valt yfir á hliðina meðan hún var að lenda. Þyrluspaðarnir voru enn í gangi og drápu 4 farþega sem voru bíðandi á þakinu eftir næsta flugi.

New York Airways varð svo gjaldþrota árið 1979 og hafa allar tilraunir um að endurvekja áætlunarflugið mistekist. Íbúar í New York fóru einnig að kvarta undan hávaða frá þyrlum sem flugu með auðuga ferðamenn yfir borgina og neyddust borgaryfirvöld að takmarka flugaðgengi verulega.