Tom Brady, sigursælasti leikmaður í sögu NFL deildarinnar, er orðinn meðeigandi í nýstofnaða ráðgjafarfyrirtækinu Consello LLC. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.

Hinn 44 ára gamli Brady gaf út tilkynningu í byrjun febrúar að hann hugðist leggja skóna á hilluna. Hins vegar lifði sú hugmynd stuttu lífi, en hann birti aðra tilkynningu í mars þar sem hann staðfesti að hann tæki annað tímabil með liði sínu Tampa Bay Buccaneers.

Consello var stofnað seint á síðasta ári, en stofnandi og forstjóri félagsins er Declan Kerry, fyrrverandi forstjóri ráðgjafarfyrirtækisins Teneo. Hann lét þar af störfum á síðasta ári vegna óviðeigandi hegðunar.

Á heimasíðu Consello segir meðal annars að Brady búi yfir einstökum leiðtogahæfileikum, en enginn á vegum Brady hefur tjáð sig um samstarfið.

Brady hefur í auknum mæli gert sig gildandi á öðrum vettvangi en í NFL og er t.d. meðstofnandi heilsufyrirtækisins TB12 Sports.