Þrjátíu og fjögur verkefni hlutu nýverið styrk úr Samfélagssjóði Landsbanka Íslands fyrir alls fimmtán milljónir króna. Hæstu styrkirnir runnu til verkefni um bættan svefn grunnskólabarna, nýjar DNA hraðgreiningar og til Framtíðarsjóðs Hjálparstarfs kirkjunnar.

Fram kemur á vef Landsbankans að „Samfélagsstyrkjunum er ætlað að styðja mannúðar- og líknarmál, menntamál, rannsóknir og vísindi, forvarna- og æskulýðsstarf, umhverfismál og verkefni á sviði menningar og lista.“

Þrjú verkefni hlutu styrk að fjárhæð einni milljón króna, sautján verkefni fengu 500 þúsund krónur og fjórtán verkefni fengu 250 þúsund króna styrk. Rúmlega 500 umsóknir bárust.

Dómnefnd samfélagsstyrkja var skipuð þeim Ármanni Jakobssyni, prófessor við Háskóla Íslands, Felix Bergssyni leikara og Guðrúnu Agnarsdóttur lækni, en hún var jafnframt formaður dómnefndar.