Þjónustu- og ráðgjafafyrirtækið Maven hefur ráðið til sín þær þær Anítu Björk Bárðardóttur og Bryndísi Charlotte Sturludóttur sem báðar koma inn í teymi gagnasérfræðinga Maven.

Fyrirtækið Maven hóf rekstur sinn árið 2021 en í dag er félagið með starfstöðvar í Reykjavík og á Akureyri, auk þess sem það er með starfsfólk í Varsjá.

Aníta Björk útskrifaðist nýlega með meistaragráðu í viðskiptagreiningu frá Tækniháskólanum í Danmörku. Hún hefur reynslu úr fjárhagsgreiningu frá Íslandsbanka þar sem hún starfaði áður.

Bryndís Charlotte er með BS gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og kemur til Maven með starfsreynslu frá NetApp Iceland, þar sem hún vann að verkefni sem tengdist gagnatengingum á milli svæða.

„Við leggjum áherslu á að þróa skapandi og nýstárlegar leiðir til að greina, skilja og nýta gögn til hins ýtrasta og það verður mikill styrkur af Anítu og Bryndísi í þeim verkefnum sem framundan eru á þessu sviði.” segir Helgi Hrafn Halldórsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Maven.