Ástrós Kristinsdóttir hefur verið ráðin markaðsstjóri Fastus ehf. en hlutverk hennar verður að móta og leiða leiða markaðsmál félagsins og endurmörkun þriggja vörumerkja auk stefnumótunar í kynningarmálum sem og innri og ytri markaðssetningu.

Um síðastliðin áramót sameinuðust Fastus, Expert, Expert kæling og GS Import í eitt félag. Hið sameinaða fyrirtæki ber heitið Fastus ehf., en starfsemi þess skiptist nú í tvö meginsvið, Fastus heilsu og Expert.

„Það er ákaflega spennandi að koma inn í nýtt starf sem er ekki fastmótað. Félagið á mikið inni í markaðsmálum og það er mitt hlutverk að leiða það verkefni farsællega. Ég er virkilega árangursdrifin og legg mikinn kraft og metnað í þau verkefni sem skipta mig máli,“ segir Ástrós.

Hún hefur unnið við markaðsmál síðastliðin fimm ár. Síðast starfaði hún sem viðskiptastjóri hjá auglýsingastofunni Hér&Nú. Þar á undan var hún aðstoðarmaður Ph.D, Þórhalls Arnar Guðlaugssonar prófessors við viðskiptafræðideild HÍ og þar áður starfaði hún sem fjármálaráðgjafi hjá Arion banka. Ástrós er með Bsc í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og auk þess með verðbréfaréttindi.

Fastus er flutt í nýjar höfuðstöðvar að Höfðabakka 7 í Reykjavík sem hýsir verslun, sýningareldhús, skrifstofur, verkstæði og vörulagerar fyrir bæði svið, auk varahlutalagers.