Birgitta Bjarnadóttir hefur gengið til liðs við Notendalausnir Origo, þar sem hún mun starfa sem rekstrarstjóri (COO). Hún mun taka þátt í stefnumótun, stýra umbótaverkefnum, þróun og innleiðingu ferla ásamt yfirumsjón á rekstrartengdum verkefnum.

„Ég er mjög ánægður að fá Birgittu í teymi lykilstjórnenda Notendalausna. Hún býr yfir dýrmætri reynslu og þekkingu á alhliða fyrirtækjarekstri og hefur gott auga fyrir ferlum, kerfisrekstri og umbótum.“ segir Jón Mikael Jónasson, framkvæmdastjóri Notendalausna Origo.

Birgitta er með MBM-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, MicroMaster gráðu í Supply Chain Management (Stjórnun aðfangakeðjunnar) frá MIT í Bandaríkjunum og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hún hefur starfað á heildsölumarkaði í yfir 20 ár, en síðustu sjö árin hefur hún gegnt stöðu rekstrarstjóra hjá Danól og Ölgerðinni, ásamt því að sitja í stjórn Danól árin 2021-2022.