Birta Kristín Helgadóttir hefur tekið við stöðu sviðsstjóra Orku hjá EFLU og tekur þar með sæti í framkvæmdastjórn félagsins.

Hún tekur við hlutverkinu af Steinþóri Gíslasyni, en hann hefur verið ráðinn framkvæmdarstjóri EFLU AB í Svíþjóð ásamt því að taka við því hlutverki að samræma sókn EFLU alþjóðlega í orkuflutningsverkefnum.

„Það er mikill fengur fyrir EFLU að fá Birtu til að leiða orkusviðið á Íslandi. EFLA ætlar hér eftir sem hingað til að vera leiðandi á þessu sviði og þekking Birtu og reynsla mun án efa nýtast vel í þeim fjölmörgu verkefnum sem fram undan eru á þessu sviði, sérstaklega verkefnum sem snúa að orkuskiptum,“ segir Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU.

Birta kemur til EFLU frá Grænvangi (e. Green by Iceland) þar sem hún starfaði sem verkefnastjóri og síðar forstöðumaður vettvangsins. Hún lauk M.Sc.-prófi í umhverfis- og orkuverkfræði með áherslu á endurnýjanlega orkugjafa frá Háskóla Íslands. Þá sat hún einnig í stjórn félags Kvenna í orkumálum 2016-2022 og stjórn Festu - miðstöð um sjálfbærni 2022-2023 og hefur jafnframt setið í fagráði Tækniþróunarsjóðs Rannís frá árinu 2020.

„Það eru ótal tækifæri á sviði orkumála í dag, bæði þegar kemur að hefðbundnum og þekktari lausnum en ekki síður á sviði nýsköpunar og þróunar. Mikilvægast er þó að til að ljúka megi orkuskiptum með sjálfbærum hætti, þarf að tryggja að það sé gert í sátt við umhverfi og samfélag, án þess að ganga óþarflega á auðlindir okkar. Ég hlakka mikið til að takast á við þetta hlutverk með öllu því góða fólki sem starfar hjá EFLU,“ segir Birta.