Björg Ásta Þórðardóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Guðrúnar Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra.

Hún lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2014 og hlaut málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 2015. Björg hefur starfað sem yfirlögfræðingur Samtaka iðnaðarins frá árinu 2015 og starfaði þar áður sem lögfræðingur hjá Félagi atvinnurekenda og fulltrúi hjá Málflutningsstofu Reykjavíkur. Þá starfaði hún hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Hún hefur jafnframt starfað í fjölmörgum stjórnum og nefndum á vegum stjórnvalda og í atvinnulífinu.

Björg er fædd og uppalin á Suðurnesjum og á að baki farsælan knattspyrnuferil með íslenskum knattspyrnuliðum og landsliðinu. Björg hefur sinnt sjálfboðaliðastarfi á sviði íþróttamála og situr nú í dómstól ÍSÍ og í aga- og úrskurðarnefnd KSÍ. Þá hefur Björg einnig verið virk í félagsstarfi og sinnt formennsku í MS-félagi Íslands.

Hún er búsett á Suðurnesjum þar sem hún er fædd og uppalin og er í sambúð með Ósk Laufeyju Breiðfjörð og eiga þær þrjú börn.

Björg hefur þegar tekið til starfa en þess ber að geta að Hreinn Loftsson hefur látið af störfum sem aðstoðarmaður dómsmálaráðherra.