„Það er mikill heiður að taka við starfinu og fá tækifæri til að leiða frábæran og reynslumikinn hóp fagfólks,“ segir Hildur Eiríksdóttir sem hefur verið ráðin forstöðumaður eignastýringar Íslandsbanka. Hún hefur starfað í 23 ár á fjármálamarkaði.

„Það er skemmtileg staðreynd að ferillinn hófst einmitt í eignastýringardeild Íslandsbanka árið 2000. Ég hef núna unnið fyrir eignastýringu bankans á undanförnum fimm árum og það hefur gengið vel. Við höfum sýnt góðan árangur og það hjálpar auðvitað að viðskiptavinir okkar eru tilbúnir að mæla með okkur, sem er besta auglýsingin.“

Hildur starfaði hjá Íslandsbanka á sínum tíma til ársins 2006 og kom að stofnun útibús bankans í Lúxemborg. Í Lúxemborg starfaði hún meðal annars hjá Nordea og Kaupþingi, auk þess að koma að stofnun og rekstri eignastýringarfyrirtækis með leyfi frá Fjármálaeftirlitinu í Lúxemborg (CSSF).

Hildur hefur æft dans frá ungum aldri, en hún útskrifaðist sem dansari frá JSB (Jazzballetskóla Báru) og kenndi þar dans í tíu ár meðfram bankastarfinu. „Ég er ennþá að dansa og hitti góðar vinkonur vikulega og við dönsum saman. Þetta er ólíkt bankastarfinu en  fer einstaklega vel saman. Þar fyrir utan er ég mikið fyrir útiveru og samveru með fjölskyldunni og vinum auk þess að stunda jóga.

Hildur er gift Guðmundi Birni Árnasyni fjármálastjóra hjá Controlant og eiga þau þrjú börn saman, 8 ára, 14 ára og 19 ára. „Það hefur mikið verið um veisluhöld með vinum og ættingjum að undanförnu, sem er ótrúlega gaman. Það er búið að ferma miðjubarnið og svo er útskrift og afmæli framundan.“

Nánar er rætt við Hildi í Viðskiptablaðinu, sem kom út föstudaginn 19. maí. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.