Erla Tryggvadóttir hefur verið ráðin samskiptastjóri Skaga, móðurfélags VÍS, Fossa fjárfestingarbanka og SIV eignastýringar. Hún kemur til með að bera ábyrgð á almannatengslum, markaðsmálum, fjárfestatengslum og sjálfbærni hjá Skaga.

Að því er segir í tilkynningu hefur Erla áralanga reynslu af almannatengslum og markaðsmálum. Hún var síðast samskiptastjóri VÍS frá árinu 2019 en þar áður var hún starfandi framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um sjálfbærni. Þá starfaði hún hjá Brandenburg auglýsingastofu, á samskipta-og markaðssviði hjá Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka og hjá RÚV, bæði í sjónvarpi og útvarpi.

„Ég er stolt af því að hefja störf hjá Skaga enda er félagið á spennandi vegferð á íslenskum fjármálamarkaði og með metnaðarfull markmið. Ég hlakka til að leggja mín lóð á vogarskálarnar í áframhaldandi vegferð og sókn félagsins,“ segir Erla.

Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga, segist fagna komu Erlu í framúrskarandi hóp starfsfólks hjá Skaga.

„Framundan eru spennandi tímar fyrir félögin í samstæðunni og ég er þess fullviss að reynsla hennar og þekking muni styrkja okkur enn frekar til framtíðar. Ég hlakka til áframhaldandi samstarfs,” segir Haraldur.

Erla er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði frá HR og Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn (CBS) og BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands.