Eva Stefánsdóttir hefur verið ráðin mannauðsstjóri og ráðgjafi hjá Júní, stafrænni stofu sem býður upp á lausnir í ráðgjöf, hönnun og forritun.
Eva hefur áður starfað sem verkefnastjóri hjá Icelandair og sem fjármálaráðgjafi hjá Landsbankanum um árabil. Hún lauk MBA-námi við Háskóla Íslands árið 2022 og er þess að auki búin með vottað grunn- og framhaldsnám í markþjálfun og útskrifuð sem NLP master coach.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að Júní leggi áherslu á símenntun í formi leiðtoga-, nýsköpunar- og hugvitsþjálfunar – auk þess sem vinnutími er sveigjanlegur og andleg og líkamleg heilsa starfsfólks sett í forgang.
Allir þessir þættir eiga veigamikinn þátt í að skapa skapandi og frjótt vinnuumhverfi þar sem fólk getur vaxið í starfi til langs tíma.
„Mannauðsstefna Júní grundvallast í „mannleikanum“ sem er eitt af okkar gildum – með virkri endurgjöf og góðu samskiptaflæði milli stjórnenda og starfsfólks. Það er ný kynslóð komin inn á vinnumarkaðinn, og þau hafa aðra sýn á vinnustaðinn og starfsframann. Þau hafa líka önnur og nútímalegri gildi.“ segir Eva.