Aton.JL samskiptafélag réð nýlega til starfa þær Guðrúnu Norðfjörð, Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur og Svanhildi Grétu Kristjánsdóttur. Guðrún starfar sem verkefnastjóri, en Steinunn og Svanhildur sem ráðgjafar. Þær hafa þegar hafið störf.

Guðrún Norðfjörð er með BA gráðu í frönsku frá Háskóla Íslands, diplómu í hagnýtri fjölmiðlun og MA gráðu í menningarstjórnun frá Goldsmiths College í London. Áður hefur Guðrún unnið sem markaðsráðgjafi hjá Íslensku auglýsingastofunni, verkefna- og framkvæmdastjóri hjá Listahátíð í Reykjavík og markaðsstjóri hjá Forlaginu.

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir er með BA gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í alþjóðasamskiptum frá Columbia háskóla í New York. Hún hefur yfir 15 ára reynslu af kynningar- og stjórnunarstörfum á vettvangi félagasamtaka og stofnana hérlendis og erlendis. Síðast gegndi hún hlutverki talskonu Stígamóta en var áður skrifstofustýra UN Women í Japan og framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

Svanhildur Gréta Kristjánsdóttir hefur síðustu 10 árin tekið þátt í og stofnað til ýmissa skapandi verkefna. Hún stofnaði eigið hönnunarstudio, Studio Holt, og er einn stofnenda ljósmynda-og framleiðslurýmisins EY Studio. Svanhildur hefur reynslu á sviði útgáfu og fjölmiðlunnar en hún stofnaði veftímaritið Blær.is, auk þess sem hún starfaði hjá Fréttatímanum og sem dagskrárgerðarkona hjá Útvarpi 101. Þar áður starfaði hún sem hugmyndasmiður hjá hönnunarstofunni Döðlur.

„Það er okkur mikil ánægja að fá Guðrúnu, Steinunni og Svanhildi í hóp okkar góða starfsfólks. Við náum nú enn betur að veita viðskiptavinum okkar heildstæða þjónustu í samskiptamálum – allt frá greiningum og stefnumótun til góðrar hönnunar og framsetningar. Við finnum fyrir miklum áhuga og þörf hjá bæði fyrirtækjum og stofnunum að hugað sé heildrænt að öllum samskiptum. Það gleður okkur einnig að með nýjustu ráðningunum er okkur að takast að jafna kynjahlutfallið hjá okkur enda erum við fyrirtæki sem setur fjölbreytni starfsfólks í öndvegi,“ segir Sif Jóhannsdóttir, rekstrarstjóri Aton.JL.