Gunnar Már Sigurfinnsson hefur verið ráðinn forstjóri GA Telesis Engine Service OY, dótturfyrirtækis GA Telesis, alþjóðlegs þjónustufyrirtækis með varahluti og alhliða viðhaldsþjónustu við flugfélög um allan heim.

GA Telesis er með starfsstöðvar víða um heim, en höfuðstöðvar þess eru í Bandaríkjunum. Gunnar hefur þegar hafið störf sem forstjóri GA Telesis Engine Service OY.

„Við erum himinlifandi með ráðningu Gunnars Más sem forstjóra. Þekking hans á flugvélageiranum og leiðtogahæfileikar hans eru einmitt það sem við leituðum að til að styrkja stöðu okkar í þessum geira. Við sjáum fram á að ná nýjum hæðum og árangri undir stjórn hans í framtíðinni,“ segir Abdol Moabery, forstjóri GA Telesis.

Gunnar Már starfaði hjá Icelandair í 37 ár, var framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs í tvígang og síðar framkvæmdastjóri Icelandair Cargo í 15 ár, þar til hann lét af störfum og tók við forstjórastöðunni hjá GA Telesis Engine Service OY. Er hann þar yfir einni af grunnstarfsemi félagsins, hreyflaviðhaldsstöð þess sem er í Finnlandi.

„Ég er stoltur að vera hluti af GA Telesis samstæðunni og ég hlakka til að leiða þann frábæra hóp starfsfólks sem þar starfar og halda vexti fyrirtækisins áfram í þessum geira. Það eru mörg spennandi tækifæri framundan sem ég veit að verður ánægjulegt að takast á við,“ segir Gunnar Már Sigurfinnsson, forstjóri.