Halldór Þór Snæland hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Kviku og tekur sæti í framkvæmdastjórn bankans. Greint er frá þessu í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Viðskiptabankasviðið þjónustar viðskiptavini Kviku með almennri bankaþjónustu, fjölbreyttum fjártæknilausnum og í gegnum sérhæfð vörumerki og dótturfélög. Á meðal vörumerkja sem heyra undir viðskiptabankasviðið eru Auður, Aur, Lykill, Netgíró og Straumur.

Halldór hefur starfað hjá Kviku frá árinu 2015. Hann hefur síðustu fjögur ár verið forstöðumaður rekstrardeildar og var áður sérfræðingur í fjárstýringu Kviku.

Á árunum 2014 til 2015 var Halldór fjármála- og rekstrarstjóri hjá nýsköpunarfyrirtækinu Sidekick Health. Hann var forstöðumaður fjárstýringar MP banka um sjö ára skeið á árunum 2006 til 2012 og starfaði þar áður sem sérfræðingur í áhættustýringu hjá Kaupþingi og Búnaðarbanka Íslands.

Halldór lauk M.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði frá KTH Royal Institute of Technology í Stokkhólmi árið 2014 og útskrifaðist frá Háskóla Íslands með B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði árið 2003 ásamt því að hafa lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.