Halldóra Vífilsdóttir hefur verið ráðin í stöðu framkvæmdastjóra Nordic – Office of Architecture á Íslandi og mun hún hefja störf í febrúar 2023. Halldóra tekur við af Hallgrími Þór Sigurðssyni sem mun nú einbeita sér að hönnun og verkefnastjórnun á stofunni, að því er kemur fram í tilkynningu.

Nordic, áður Arkþing, er ein af stærstu teiknistofum landsins og er hluti af norrænu teiknistofunni Nordic – Office of Architecture, einni stærstu arkitektastofu Norðurlandanna.

Síðustu ár hefur Halldóra starfað sem verkefnastjóri Austurbakka, nýbyggingar Landsbankans, en sú framkvæmd er nú á lokametrunum. Áður en hún tók við því verkefni, á árunum 2012 – 2017, var hún aðstoðarforstjóri og síðar forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins.

Halldóra hefur einnig komið að mótun stefnu stjórnvalda í mannvirkjagerð, tekið þátt í að móta gæðastefnu Reykjavíkurborgar á sviði manngerðs umhverfis og er nú formaður stýrihóps um endurbætur á Litla-Hrauni.

Hún útskrifaðist með meistaragráðu í arkitektúr frá Tækniháskólanum í Helsinki árið 1997.

„Ég hlakka mikið til að vinna með góðum hópi starfsfólks að krefjandi og skemmtilegum verkefnum. Nordic á Íslandi byggir á afar góðum grunni en þar starfar góður, reyndur og fjölbreyttur hópur skapandi fólks. Þar liggja mörg tækifæri enda fyrirtækið hluti af öflugri norrænni arkitektastofu. Ég er því mjög spennt fyrir því að hefja störf í febrúar,“ segir Halldóra.

Hjá Nordic á Íslandi starfa nú 50 sérfræðingar en í heildina er starfsfólk um 300 talsins í skrifstofum fyrirtækisins í Osló, Kaupmannahöfn og Reykjavík.

„Nordic hefur stækkað ört á undanförnum árum. Halldóra býr yfir mikilli reynslu og þekkingu á sviði hönnunar, reksturs og framkvæmda og er mikill fengur í því að fá Halldóru til liðs við okkur. Þar að auki hefur hún sérhæft sig í innleiðingu á verkefnamiðuðu vinnuumhverfi, sérfræðiþekkingu sem við sjáum aukna eftirspurn eftir. Hún er ekki aðeins mikilvæg í áframhaldandi uppbyggingu stofunnar heldur einnig í að efla þjónustu við viðskiptavini okkar,“ segir Hallgrímur Þór Sigurðsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Nordic á Íslandi.

Nordic hefur á síðustu árum unnið að nokkrum af stærstu hönnunarverkefnum í Evrópu eins og Gardermoen-flugvellinum við Osló, nýja alþjóðaflugvellinum í Istanbúl, ráðuneytishverfinu í Osló, St. Olavs spítala í Þrándheimi og nýju háskólasjúkrahúsi í Stavangri. Meðal verkefna Nordic á Íslandi má nefna stækkun flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, skipulag Breiðarinnar á Akranesi og heildarendurnýjun Seðlabanka Íslands. Stofan hefur einnig aðkomu að hönnun og skipulagi á um tvö þúsund íbúðum.