„Ég myndi kalla mig sósíalista, alls ekki krata heldur lýðræðissólsíalista,“ segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra. Ögmundur hætti á þingi nú í haust eftir að hafa setið þar allt frá árinu 1995, fyrst sem þingmaður Alþýðubandalagsins og óháðra og síðar fyrir Vinstri-græn. „Ég er sósíalisti sem vill jöfnuð og eins mikinn jöfnuð og mögulegt er. Ég vil negla það inn í samfélagið og í alla okkar vitund og helst löggjöfina líka. Ég kenni mig gjarnan við anarkisma í þeim skilningi að ég er mjög gagnrýninn á allt vald að ofan. Sumir anarkistar halda að anarkismi sé að henda grjóti í fólk, en ég hef aldrei litið svo á. Í þriðja lagi er ég líberalisti í anda Johns Stuart Mill, sem sagði að hver maður ætti að vera frjáls svo lengi sem hann skaðar ekki aðra. Þannig að ég hef alltaf viljað hafa rúm fyrir einstaklinginn.“

Aðspurður segist Ögmundur ekki sjá neina mótsögn í þessum þremur þáttum persónuleika síns. „Ég vil sannfæra fólk um ágæti minna hugmynda, en ekki neyða það til þess með ofbeldi. Ég er á móti öllu ofbeldi. Hins vegar getum við sett okkur leikreglur með lögum, þannig að þegar ríkið semur við starfsmenn sína þá verði bundið í lög að sá lægst launaði fái að minnsta kosti þriðjung þess sem sá hæst launaði fær. Þetta er vissulega valdboð í ákveðnum skilningi, en við sammælumst hins vegar um lög landsins með lýðræðislegum hætti. Það á ekki að neyða samfélagsgerð upp á þjóð sem ekki vill hana, en við getum með lögum og reglum til dæmis komið í veg fyrir að einhverjir taki um of til sín.“

Býr á gamla rabarbarareitnum

Ögmundur er vesturbæingur og er hús hans staðsett þar sem amma hans og afi reistu sér bú í upphafi síðustu aldar - nánar tiltekið býr hann þar sem rabarbaragarðurinn var, rétt vestan við fjósið. „Ég gekk í MR, og er sagnfræðingur frá háskólanum í Edinborg, þar sem ég lagði stund á sagnfræði og stjórnmálafræði. Ég gef alltaf haldið tengslum við sagnfræðina og var allt fram á síðustu ár stundakennari við Háskóla Íslands. Ég fór svo að vinna á Ríkisútvarpinu sem fréttamaður árið 1978, sem segja má að sé sagnfræðingur á hlaupum. Ég var þar í tíu ár, eða til ársins 1988. Ég fór að skipta mér af verkalýðspólitík strax og ég kom inn á vinnumarkaðinn, var formaður starfsmannafélags sjónvarpsins, settist í stjórn BSRB og var formaður Bandalagsins frá árinu 1988 þar til ég tók við embætti heilbrigðisráðherra árið 2009.“

Ögmundur segir að þetta tvöfalda hlutverk, að vera bæði þingmaður og formaður stéttarfélags, hafi á stundum verið gagnrýnt, en hann hafi aldrei gefið mikið fyrir þá gangrýni. „Ég naut alla tíð stuðnings félaga minna innan BSRB. Bandalagið var á tímum rammpólitískt og tók afstöðu gegn einkavæðingu og með vatninu í almannaeign, en þetta voru málefni sem nutu stuðnings fólks úr öllum flokkum þannig að við vorum ekki flokkspólitísk. Ég gerði þó eitt þegar ég tók fyrst sæti á Alþingi fyrir framboð Alþýðubandalagsins og óháðra árið 1995, þá hætti ég að taka laun sem formaður BSRB frá fyrsta degi á þingi, þannig að ég var aldrei háður Bandalaginu í fjárhagslegum skilningi sem þingmaður. Þetta skipti sjálfan mig máli enda er ég þeirrar skoðunar að menn verði alltaf að byrja á sjálfum sér hvað prinsippin áhrærir, annars kemur þá til að skorta innri styrk. “

Hann segist hafa snúist til vinstrimennsku á háskólaárunum. „Faðir minn var sjálfstæðismaður og móðir mín var, þrátt fyrir að vera óflokksbundin, ein róttækasta manneskja sem ég hef kynnst. Hún var svo róttæk að á meðan bræður hennar, sem voru miklir kommúnistar eða sósíalistar og verkalýðsbaráttumenn, kusu þá flokka sem voru lengst til vinstri á hverjum tíma, þá studdi hún Eystein Jónsson og sagði það vera vegna þess að þar færi maður sem væri á undan sinni samtíð í umhverfismálum. Og svo þegar Kvennaframboðið kom fram í kringum 1980 þá spurði hún mig hvað ég ætlaði að kjósa. Ég svaraði því til að líklega myndi ég kjósa Fylkinguna eða þann flokk sem þá stæði lengst til vinstri. Þá sagði móðir mín: „Mikið ertu íhaldssamur Ögmundur minn. Þú ættir að kjósa þann sem vill fella valdastólana og breyta viðhorfum fólks til réttlætis, en ekki þá sem vilja setjast í þá.“

Ég fór að ráði móður minnar í þessu eins og svo mörgu öðru og kaus Kvennaframboðið. Við því tók svo Kvennalistinn, sem varð kvótaflokkur, sem vildi jafnmargar konur og karla uppi á valdastólunum án þess að vilja fella þá og gaf minna fyrir þá viðhorfsbreytingu í átt til jafnaðar sem hrifið hafði mig, nema þá þeirri sem laut að konum sérstaklega. Það er ágætt fyrir sinn hatt en ég hef alltaf viljað horfa til bæði karla og kvenna þegar jöfnuðurinn er annars vegar. Ég hef auk þess aldrei verið fyrir kvótakerfi, hvort sem er í atvinnulífinu eða í pólitíkinni, þannig að sem kjósandi stoppaði ég stutt hjá kvennahreyfingunni. Það breytir því ekki að ég vil jafnrétti kynjanna. Lít á það sem stórmál en ekki á kostnað jöfnuðar allra, karla og kvenna. Þegar það kom til tals um miðjan tíunda áratuginn að ég færi í þingframboð var ákveðið að láta verða af kosningabandalagi Alþýðubandalagsins og óháðra. Mér fannst þetta alltaf óþjált nafn, enda hef ég aldrei verið neitt sérstaklega óháður þeim stefnumiðum sem ég segist ætla að beita mér fyrir. Af minni hálfu var nafngiftin í bland af kurteisi við BSRB, enda hafði ég ekki gert grein fyrir þessum áformum mínum á þingi Bandalagsins. Reyndar voru mun fleiri en ég úr röðum óháðra í þessum kosningum árið 1995 en mér reiknast til að þriðjungur frambjóðenda á listanum í Reykjavík hafi verið úr þessum hópi.“

Pendúllinn hefur sveiflast til hægri

Aðspurður segir Ögmundur að þótt faðir hans hafi verið sjálfstæðismaður hafi minna aðskilið þá í pólitík en ætla mætti. „Faðir minn var mikill framfaramaður og frjálslyndur í hugsun. Það sem hann var að segja, Sjálfstæðismaðurinn, á sjötta og sjöunda áratugnum er mjög svipað því sem ég, sem er lengst til vinstri í nútímapólitíkinni, segi í dag. Þetta sýnir okkur hvað hinn pólitíski pendúll hefur sveiflast langt til hægri á þessum tíma. Vinstri mennirnir tala nú eins og Sjálfstæðismenn um miðja síðustu öld en á móti hefðu menn eins og faðir minn aldrei talað um að einkavæða skólana og sjúkrahúsin! Báðir hafa breyst, hægri menn og vinstri menn. Margrét Thatcher var eitt sinn spurð að því hvað hennar mesta afrek hefði verið í stjórnmálum. Hún svaraði að bragði að það væri Tony Blair og hinn Nýi Verkamannaflokkurinn. Hún áorkaði því nefnilega að breyta sósíaldemókrötunum í Verkamannaflokknum í frjálshyggjumenn. Ég held að Sjálfstæðismenn á sjötta sjöunda og áttunda áratugnum hafi verið sambærilegir norrænum krötum. Svo gerist það undir lok aldarinnar að Sjálfstæðisflokkurinn, eins og fleiri hægriflokkar, færist lengra til hægri og í átt að ómengaðri frjálshyggju. Frjálshyggjumenn mega eiga það að þeir höfðu unnið mikið undirbúningsstarf og plægt jarðveginn og sáð í hann. Milton Friedman, Friedrich Hayek og fleiri komu hingað á vegum Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og félaga í Eimreiðarhópnum svokallaða. Þeir umturnuðu öllu í hugarfari hægri manna og drógu þá á vagni sínum langt til hægri. Á eftir lötruðu síðan kratarnir og við sósíalistarnir neyddumst til að taka upp varnir við víglínur sem liggja langt til hægri við þær línur sem ég hefði helst kosið.

Ég man að þegar ég var sjónvarpsmaður og maður tók fegins hendi öllum útlendingum sem hingað komu og höfðu eitthvað fram að færa að þetta voru allt hægrimenn. Á sama tíma má segja að vinstrimenn hafi einfaldlega skipað sér á áhorfendapallanna. Það er öfugt við það sem gerðist á sjöunda áratugnum og í upphafi þess áttunda, þegar krafturinn var allur hjá vinstrimönnum. Þá rúmaði stafrófið varla öll flokksbrotin á vinstrivængnum. Menn náðu ekki völdum, sem slíkum, en þeir höfðu áhrif á samfélagið. Það er það sem pólitíkin snýst um, ekki það eitt að komast á Alþingi, heldur að hafa áhrif á samfélagið. Verkefni félagslega sinnaðs fólks núna er breyta þessu og fá pendúlinn til að sveiflast aftur til vinstri.“

Aðskilnaður stofnana og grasrótar

Ögmundur segir hina pólitísku hugsun í þjóðfélaginu hafa breyst verulega. „Annars vegar erum við með stofnanaveldi stjórnmálanna og hins vegar með grasrótarpólitík og þetta tvennt er að verða viðskila. Stofnanaveldið er hætt að skilja grasrótina, sem aftur hefur ýmigust á stofnanaveldinu. Þetta skýrir hluti eins og Brexit-kosningarnar í Bretlandi og kjör Donald Trump í Bandaríkjunum. Elítan í hroka sínum kallar þetta popúlisma, en hvað er popúlismi? Er það ekki einfaldlega það sem er vinsælt? Það sem fjöldinn vill? Maður þarf að spyrja sig að því hvað skýrir þennan viðskilnað milli stofnananna og grasrótarinnar og ef menn eru ásáttir við almannaróm þá þarf að takast málefnalega á við það.

Mín kenning er sú að lengi vel einbeittu vinstriflokkarnir sér að þeim sem voru í neðstu lögum samfélagsins, þeim sem höllum fætu stóðu og þurftu mest á aðstoð að halda. Hvernig var hægt að bæta kjör þessa fólks? Hin pólitíska samfélagssýn okkar flestra var á þessum sömu forsendum. En þetta hefur breyst að því leyti að fólk horfir nú ekki síður á það sem er að gerast í efri lögunum. Hjá þeim sem eiga eignirnar, fá bónusana og eru að taka til sín. Kratisminn hefur ekki brugðist við þessari breytingu. Við létum bankakerfið óáreitt í ríkisstjórninni sem tók við völdum eftir hrunið og okkur var ekki fyrirgefið. Við einbeittum okkur að því að varðveita innviðina og gera ekki það sem hægrimenn hefðu gert, til dæmis að fara í frekari einkavæðingu. Þjóðfélag við öfgafullar aðstæður sættir sig hins vegar ekki við það að eitthvað sé ekki gert. Það er við þessu sem menn eins og Donald Trump þykjast vera að bregðast og það er þess vegna sem þeir ná kjöri. Hann setti sig upp á móti valdakerfinu í Washington og fjármálakerfinu á Wall Street. Hillary Clinton tapar af því að menn telja hana of háða fjármálakerfinu og hernaðarmaskínunni. Trump er náttúrlega nátengdur þessu kerfi, en hefur sett sig upp á móti því. Þessa gagnrýni á Clinton og fólk af hennar sauðahúsi verða vinstri menn að taka alvarlega. Þetta er alvöru gagnrýni og að mínu mati réttmæt.

Pólitíkin er öll ófyrirsjáanlegri en hún áður var. Skoðanakannanir hafa ekki sama forspárgildi og þær höfðu. Við erum að fara inn í heim óvissunnar. Þessi heimur býður upp á ýmis tækifæri, sem tæknin og beint lýðræði færa okkur, en einnig ógnir. Við skulum ekki gefa okkur að lýðræði og mannréttindi, sem við töldum að væri í höfn, sé það endilega.“

Samkeppniseftirlitið undarleg stofnun

Ögmundur segir samt fólk ennþá tala í gömlum klisjum. „Menn mega ekki láta hugmyndafræðina ráða of miklu. Menn verða einnig að vera raunsæir. Vera pragmatískir frekar en ídeólógískir. Svo maður taki landbúnaðarmálin sem dæmi, en það segir sína sögu hvernig þau eru rædd á Alþingi. Fyrir þrjátíu til fjörutíu árum hefði fólk spurt hvernig neytendur gætu fengið sem besta og ódýrasta vöru. Umræðan í dag er á allt öðrum nótum. Nú er spurt um hag fyrirtækjanna, réttlæti í samkeppninni og neytandinn er orðinn afgangsstærð. Nú er það þannig að á Íslandi eru 660 kúabændur og þeir mynda með sér samvinnufélag um að dreifa sinni vöru. Sérstök lög undanskilja þetta félag samkeppnislöggjöfunni og þetta fyrirkomulag hefur orðið þess valdandi að á síðast áratug hefur mjólk og mjólkurafurðir lækkað um 20%, fært neytendum tvo milljarða og bændum einn milljarð. Samkeppniseftirlitið, sem er mjög undarleg stofnun og dæmdi Bændasamtökin í sekt fyrir að ræða málefni bænda og var það kallað verðsamráð, hefur svo lagst á MS líka. Ég bíð þess að verkalýðsfélögin verði dæmd sek um verðsamráð fyrir að ræða saman um launakröfur. Það er þetta sem ég meina þegar ég tala um að hugsa á raunhæfum nótum. Viljum við frekar treysta í blindni á markaðinn og að hann leysi allan vanda, eða viljum við búa til kerfi sem gagnast öllum.“

Hann segir að það sem breyst hafi á síðustu fimmtíu eða sextíu árum í íslenskri pólitík snúi að þessum andstæðum, hugsjónum og pragmatisma. „Við sem vorum sósíalistar fyrir fimmtíu árum eða sextíu árum hugsuðum í anda stífrar hugmyndafræði. Við sögðum að það þyrfti að gefa hugmyndum okkar og samfélagssýn tíma til að virka. Hægrimennirnir á þessum tíma höfðu enga biðlund voru pragmatistar og vildu horfa til reynslunnar, það er hverning hugmyndafræðin virkaði í reynd núna. Nú hefur þetta snúist við og við vinstrimenn erum pragmatistarnir sem vísum til reynslunnar af einkavæðingunni til dæmis en hægrimennirnir vilja halda sig við sinn rétttrúnað og vilja sífellt l fá meiri tíma fyrir frjáldshyggjuna til að sanna ágæti sitt þegar reynslan af henni er augljóslega slæm. Þess vegna geld ég meiri varhug en áður við stífri ídeólógískri hugsun. Hún getur nefni lega svipt menn dómgreindinni og því sem kalla má heilbrigða skynsemi.“

Pólitíkinni úthýst

Þegar Ögmundur tók sæti árið 1995 var það í tíð annarrar ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og átti Sjálfstæðisflokkurinn eftir að vera við völd í fjórtán ár í viðbót. „Mér fannst maður vera að gera gagn, í þeim skilningi að maður var að reyna að hafa áhrif þótt í stjórnaandstöðu væri. Það er stundum erfitt að sjá gagnið sem maður gerir þegar maður er að þvo upp eftir matinn, en maður tekur eftir því ef það er ekki gert. Það getur verið erfitt að sjá gagnið sem maður gerir, þegar maður kemur í veg fyrir eitthvað sem hefði gerst ef ekki hefði komið til þín barátta. Þetta var fyrst og fremst varnarbarátta því krafturinn var hjá hægrimönnum og frjálshyggjunni, en hann er þorrinn núna. Kapítalisminn er að ganga frá sér sjálfur, vegna þess að hann er að brjóta hinar siðferðilegu undirstöður sínar. Menn töldu að með mikilli misskiptingu og baráttu frá verkalýðnum og vinstrihreyfingunni væri hægt að hemja kapítalismann. Kapítalistarnir trúðu þessu og urðu værukærir. Fyrir bragðið hefur kapitalisminn fengið að fara sínu fram síðustu ár og áratugi og jafnvel fengið kratana með sér í lið. Þegar það gerist slaka menn á verðinum og hætta að hirða um hina siðferðilegu undirstöðu kerfisins og það er þetta sem er að valda þessari reiði sem maður upplifir í heimi óvissunnar.

Þrátt fyrir að á þessum tíma hafi íslenskt samfélag færst mjög til hægri segir Ögmundur að hann hafi aldrei haft áhyggjur af því að baráttan væri töpuð. Við viljum búa í góðum heimi og við viljum ekki búa í heimi sem er vondur við börnin okkar eða við þá sem standa höllum fæti. Þetta er sammenskt, sama hvar fólk stendur í pólitík, og þess vegna missi ég aldrei vonina . Fólk talaði um tapað stríð þegar við vorum að tala um umhverfið og umhverfisvernd, en það gerir það enginn núna. Samfélagið hefur færst mjög í átt til þeirra sjónarmiða sem við höfum barist fyrir á þessum sviðum og þar er stríðið alls ekki tapað. Þvert á móti það er að vinnast hægt og bítandi.“

Ögmundur segir hægt að ganga of langt í samræðustjórnmálum. „Ég held að menn þurfi líka stundum að velta því fyrir sér hvað er raunverulega pólitískt og hvað er ekki. Ég hef stundum sagt að ef menn vissu ekki í hvaða flokki þeir væru á Alþingi væri hægt að leysa mörg mál í sátt og samlyndi. En það breytir því ekki að sum mál eru, og eiga að vera, pólitísk átakamál. Það á að takast á inni á Alþingi. Ég vil meiri pólitísk átök á Alþingi og menn leysa þessi mál ekki með kaffispjalli, heldur eiga menn að safna liði og takast á. Mér finnst stundum eins og verið sé að úthýsa allri pólitík af Alþingi. Við erum í þjóðfélagi þar sem miklir hagsmunir takast á og við sem sitjum á Alþingi erum að vissu leyti talsmenn þessara hagsmuna og eigum að vera það. Þegar menn eru hættir að rífast um kvótakerfið, fjármálakerfið og skipulag heilbrigðisþjónustunnar, þá er eitthvað mikið að.“

Blómin eiga að hafa lit

Þegar Sovétríkin féllu hafði það ekki teljandi áhrif á íslenska vinstrimenn, enda höfðu þeir fyrir löngu yfirgefið Sovétríkin í huganum, að sögn Ögmundar. „Ég var alla tíð langt til vinstri, og er enn, en ég vil búa í landi þar sem blómin hafa lit, en eru ekki grá. Þar sem fólk má segja það sem það vill segja. Þannig að veruleiki Sovétríkjanna var í mínum huga alltaf óásættanlegur. Mér hefur alltaf þótt lýðræði og frelsi nauðsynleg til að mannsandinn fái að dafna, enda visna öll samfélög þar sem þessa hluti vantar. Á sinn hátt var ákveðin frelsun fólgin í falli Sovétríkjanna, því eftir að þau voru farin var ekki lengur hægt að nota þau til að sverta okkur vinstrimenn. Á sama hátt er ósanngjarnt að segja um þá sem vilja frjálst markaðskerfi, að þeir hljóti þar af leiðandi að vera aðdáendur Donalds Trump. Þetta eigum við ólært í stjórnmálum að leggja ekki allt út á versta veg.“

Kosningar aftur og aftur og aftur

Ég var mjög andvígur þessum kosningum. Ég greiddi atkvæði með því að kosið yrði síðasta vor, en sú tillaga var felld. Fyrst það gerðist hefði átt að bíða til næsta vors, alls ekki kjósa um haust. Mér þótti líka afar sérstakt að sjá Samfylkinguna, sem mældist með afar lítið fylgi í könnunum, berjast fyrir haustkosningum. Ég velti því fyrir mér hvort ekki væri rétt að láta sálfræðinga kanna hvernig á þessu stæði en svarið held ég að sé hræðsla við að þóknast ekki einhverjum óskilgreindum í stað þess að fylgja eigin sannfæringu og dómgreind. Samfylkingin var ekki þarna ein á báti. Mér fannst líka misráðið af öðrum stjórnarandstöðuflokkum að berjast fyrir þessum kosningum, enda hefðum við þurft að undirbúa okkur betur. Ríkisstjórnin fyrir sitt leyti tók svo ákvörðun um kosningar, skjálfandi í hnjáliðum. Nú kenna allir hinum um! Enginn þykist hafa viljað haustkosningar. En nú, þegar ég er búinn að fylgjast með stjórnarmyndunarviðræðunum og umræðunni í þjóðfélaginu, þá hef ég komiist að þeirri niðurstöðu að bæði þurfi að r að gera þjóð og stjórnmálamenn ábyrgari. Ef ekki tekst að mynda stjórn á að kjósa aftur. Og ef stjórnarmyndun tekst ekki eftir þær kosningar á að kjósa aftur og aftur og aftur þar til vitað er hvað er í hverjum poka. Með því móti kynnist þjóðin stjórnmálamönnum sínum betur og öfugt. Þannig getum við hugsanlega þróað okkur inn í betra stjórnmálalíf þar sem orð og efndir fara betur saman.

Ég er rétt að byrja

Ögmundur telur að fylgishrun Samfylkingarinnar eigi sér líklega tvennar rætur. „Annars vegar voru Evrópumálin skrúfa á sál Samfylkingarinnar. Það var alveg sama hvernig mál þróuðust innan Evrópusambandsins - ég nefni Grikklandskrísuna sem dæmi - aldrei breyttist afstaða flokksins og ég held að fólk hafi einfaldlega farið að velta fyrir sér hvað væri á matseðlinum í Brüssel sem skýrði þessa þráhyggju. Eins held ég að flokkurinn hafi gengið full langt í daðri sínu við markaðshyggjuna. Ég held hins vegar að ef félagslega sinnað fólk nær aftur vopnum sínum innan flokksins sé honum við bjargandi. Mér sýnist stefna í að VG og Samfylking gætu sameinast, að þessu gefnu. Ýmislegt hefur breyst frá því að Samfylkingin var stofnuð og við stofnuðum VG og má sem dæmi nefna að Atlantshafsbandalagið er, illu heilli, ekki eins stórt mál innan VG og það var. Þannig að ég held að snertifletirnir á milli flokkanna tveggja séu fleiri en áður. Það þýðir hins vegar að VG gæti að sama skapi færst enn nær skoðanalítilli miðjupólitík. Gerist það kviknar aftur líf til vinstri. Það þarf ekki að vera slæmt ef menn hugsa stórt og vilja stykja félagshyggjupólitík almennt. Sjálfur horfi ég inn á aðrar lendur og stærri en rúmast innan eistakra flokka. Nú ætla ég að snúa mér að tíðarandanum af margefldum krafti. Honum þarf að breyta, alveg eins og Hayek og Hólmsteinn gerðu á sínum tíma. Við höfum haft uppskeru þeirra á borðum okkar undanfarin ár. Nú þarf að plægja hinn pólitíska akur og sá þar fyrir hollari uppskeru. Ég er ekki búinn að gefa upp mína póliísku önd. Tifinningin innra með mér er sú að ég sé rétt að byrja. “

Viðtalið við Ögmund birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins.

„Ég myndi kalla mig sósíalista, alls ekki krata heldur lýðræðissólsíalista,“ segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra. Ögmundur hætti á þingi nú í haust eftir að hafa setið þar allt frá árinu 1995, fyrst sem þingmaður Alþýðubandalagsins og óháðra og síðar fyrir Vinstri-græn. „Ég er sósíalisti sem vill jöfnuð og eins mikinn jöfnuð og mögulegt er. Ég vil negla það inn í samfélagið og í alla okkar vitund og helst löggjöfina líka. Ég kenni mig gjarnan við anarkisma í þeim skilningi að ég er mjög gagnrýninn á allt vald að ofan. Sumir anarkistar halda að anarkismi sé að henda grjóti í fólk, en ég hef aldrei litið svo á. Í þriðja lagi er ég líberalisti í anda Johns Stuart Mill, sem sagði að hver maður ætti að vera frjáls svo lengi sem hann skaðar ekki aðra. Þannig að ég hef alltaf viljað hafa rúm fyrir einstaklinginn.“

Aðspurður segist Ögmundur ekki sjá neina mótsögn í þessum þremur þáttum persónuleika síns. „Ég vil sannfæra fólk um ágæti minna hugmynda, en ekki neyða það til þess með ofbeldi. Ég er á móti öllu ofbeldi. Hins vegar getum við sett okkur leikreglur með lögum, þannig að þegar ríkið semur við starfsmenn sína þá verði bundið í lög að sá lægst launaði fái að minnsta kosti þriðjung þess sem sá hæst launaði fær. Þetta er vissulega valdboð í ákveðnum skilningi, en við sammælumst hins vegar um lög landsins með lýðræðislegum hætti. Það á ekki að neyða samfélagsgerð upp á þjóð sem ekki vill hana, en við getum með lögum og reglum til dæmis komið í veg fyrir að einhverjir taki um of til sín.“

Býr á gamla rabarbarareitnum

Ögmundur er vesturbæingur og er hús hans staðsett þar sem amma hans og afi reistu sér bú í upphafi síðustu aldar - nánar tiltekið býr hann þar sem rabarbaragarðurinn var, rétt vestan við fjósið. „Ég gekk í MR, og er sagnfræðingur frá háskólanum í Edinborg, þar sem ég lagði stund á sagnfræði og stjórnmálafræði. Ég gef alltaf haldið tengslum við sagnfræðina og var allt fram á síðustu ár stundakennari við Háskóla Íslands. Ég fór svo að vinna á Ríkisútvarpinu sem fréttamaður árið 1978, sem segja má að sé sagnfræðingur á hlaupum. Ég var þar í tíu ár, eða til ársins 1988. Ég fór að skipta mér af verkalýðspólitík strax og ég kom inn á vinnumarkaðinn, var formaður starfsmannafélags sjónvarpsins, settist í stjórn BSRB og var formaður Bandalagsins frá árinu 1988 þar til ég tók við embætti heilbrigðisráðherra árið 2009.“

Ögmundur segir að þetta tvöfalda hlutverk, að vera bæði þingmaður og formaður stéttarfélags, hafi á stundum verið gagnrýnt, en hann hafi aldrei gefið mikið fyrir þá gangrýni. „Ég naut alla tíð stuðnings félaga minna innan BSRB. Bandalagið var á tímum rammpólitískt og tók afstöðu gegn einkavæðingu og með vatninu í almannaeign, en þetta voru málefni sem nutu stuðnings fólks úr öllum flokkum þannig að við vorum ekki flokkspólitísk. Ég gerði þó eitt þegar ég tók fyrst sæti á Alþingi fyrir framboð Alþýðubandalagsins og óháðra árið 1995, þá hætti ég að taka laun sem formaður BSRB frá fyrsta degi á þingi, þannig að ég var aldrei háður Bandalaginu í fjárhagslegum skilningi sem þingmaður. Þetta skipti sjálfan mig máli enda er ég þeirrar skoðunar að menn verði alltaf að byrja á sjálfum sér hvað prinsippin áhrærir, annars kemur þá til að skorta innri styrk. “

Hann segist hafa snúist til vinstrimennsku á háskólaárunum. „Faðir minn var sjálfstæðismaður og móðir mín var, þrátt fyrir að vera óflokksbundin, ein róttækasta manneskja sem ég hef kynnst. Hún var svo róttæk að á meðan bræður hennar, sem voru miklir kommúnistar eða sósíalistar og verkalýðsbaráttumenn, kusu þá flokka sem voru lengst til vinstri á hverjum tíma, þá studdi hún Eystein Jónsson og sagði það vera vegna þess að þar færi maður sem væri á undan sinni samtíð í umhverfismálum. Og svo þegar Kvennaframboðið kom fram í kringum 1980 þá spurði hún mig hvað ég ætlaði að kjósa. Ég svaraði því til að líklega myndi ég kjósa Fylkinguna eða þann flokk sem þá stæði lengst til vinstri. Þá sagði móðir mín: „Mikið ertu íhaldssamur Ögmundur minn. Þú ættir að kjósa þann sem vill fella valdastólana og breyta viðhorfum fólks til réttlætis, en ekki þá sem vilja setjast í þá.“

Ég fór að ráði móður minnar í þessu eins og svo mörgu öðru og kaus Kvennaframboðið. Við því tók svo Kvennalistinn, sem varð kvótaflokkur, sem vildi jafnmargar konur og karla uppi á valdastólunum án þess að vilja fella þá og gaf minna fyrir þá viðhorfsbreytingu í átt til jafnaðar sem hrifið hafði mig, nema þá þeirri sem laut að konum sérstaklega. Það er ágætt fyrir sinn hatt en ég hef alltaf viljað horfa til bæði karla og kvenna þegar jöfnuðurinn er annars vegar. Ég hef auk þess aldrei verið fyrir kvótakerfi, hvort sem er í atvinnulífinu eða í pólitíkinni, þannig að sem kjósandi stoppaði ég stutt hjá kvennahreyfingunni. Það breytir því ekki að ég vil jafnrétti kynjanna. Lít á það sem stórmál en ekki á kostnað jöfnuðar allra, karla og kvenna. Þegar það kom til tals um miðjan tíunda áratuginn að ég færi í þingframboð var ákveðið að láta verða af kosningabandalagi Alþýðubandalagsins og óháðra. Mér fannst þetta alltaf óþjált nafn, enda hef ég aldrei verið neitt sérstaklega óháður þeim stefnumiðum sem ég segist ætla að beita mér fyrir. Af minni hálfu var nafngiftin í bland af kurteisi við BSRB, enda hafði ég ekki gert grein fyrir þessum áformum mínum á þingi Bandalagsins. Reyndar voru mun fleiri en ég úr röðum óháðra í þessum kosningum árið 1995 en mér reiknast til að þriðjungur frambjóðenda á listanum í Reykjavík hafi verið úr þessum hópi.“

Pendúllinn hefur sveiflast til hægri

Aðspurður segir Ögmundur að þótt faðir hans hafi verið sjálfstæðismaður hafi minna aðskilið þá í pólitík en ætla mætti. „Faðir minn var mikill framfaramaður og frjálslyndur í hugsun. Það sem hann var að segja, Sjálfstæðismaðurinn, á sjötta og sjöunda áratugnum er mjög svipað því sem ég, sem er lengst til vinstri í nútímapólitíkinni, segi í dag. Þetta sýnir okkur hvað hinn pólitíski pendúll hefur sveiflast langt til hægri á þessum tíma. Vinstri mennirnir tala nú eins og Sjálfstæðismenn um miðja síðustu öld en á móti hefðu menn eins og faðir minn aldrei talað um að einkavæða skólana og sjúkrahúsin! Báðir hafa breyst, hægri menn og vinstri menn. Margrét Thatcher var eitt sinn spurð að því hvað hennar mesta afrek hefði verið í stjórnmálum. Hún svaraði að bragði að það væri Tony Blair og hinn Nýi Verkamannaflokkurinn. Hún áorkaði því nefnilega að breyta sósíaldemókrötunum í Verkamannaflokknum í frjálshyggjumenn. Ég held að Sjálfstæðismenn á sjötta sjöunda og áttunda áratugnum hafi verið sambærilegir norrænum krötum. Svo gerist það undir lok aldarinnar að Sjálfstæðisflokkurinn, eins og fleiri hægriflokkar, færist lengra til hægri og í átt að ómengaðri frjálshyggju. Frjálshyggjumenn mega eiga það að þeir höfðu unnið mikið undirbúningsstarf og plægt jarðveginn og sáð í hann. Milton Friedman, Friedrich Hayek og fleiri komu hingað á vegum Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og félaga í Eimreiðarhópnum svokallaða. Þeir umturnuðu öllu í hugarfari hægri manna og drógu þá á vagni sínum langt til hægri. Á eftir lötruðu síðan kratarnir og við sósíalistarnir neyddumst til að taka upp varnir við víglínur sem liggja langt til hægri við þær línur sem ég hefði helst kosið.

Ég man að þegar ég var sjónvarpsmaður og maður tók fegins hendi öllum útlendingum sem hingað komu og höfðu eitthvað fram að færa að þetta voru allt hægrimenn. Á sama tíma má segja að vinstrimenn hafi einfaldlega skipað sér á áhorfendapallanna. Það er öfugt við það sem gerðist á sjöunda áratugnum og í upphafi þess áttunda, þegar krafturinn var allur hjá vinstrimönnum. Þá rúmaði stafrófið varla öll flokksbrotin á vinstrivængnum. Menn náðu ekki völdum, sem slíkum, en þeir höfðu áhrif á samfélagið. Það er það sem pólitíkin snýst um, ekki það eitt að komast á Alþingi, heldur að hafa áhrif á samfélagið. Verkefni félagslega sinnaðs fólks núna er breyta þessu og fá pendúlinn til að sveiflast aftur til vinstri.“

Aðskilnaður stofnana og grasrótar

Ögmundur segir hina pólitísku hugsun í þjóðfélaginu hafa breyst verulega. „Annars vegar erum við með stofnanaveldi stjórnmálanna og hins vegar með grasrótarpólitík og þetta tvennt er að verða viðskila. Stofnanaveldið er hætt að skilja grasrótina, sem aftur hefur ýmigust á stofnanaveldinu. Þetta skýrir hluti eins og Brexit-kosningarnar í Bretlandi og kjör Donald Trump í Bandaríkjunum. Elítan í hroka sínum kallar þetta popúlisma, en hvað er popúlismi? Er það ekki einfaldlega það sem er vinsælt? Það sem fjöldinn vill? Maður þarf að spyrja sig að því hvað skýrir þennan viðskilnað milli stofnananna og grasrótarinnar og ef menn eru ásáttir við almannaróm þá þarf að takast málefnalega á við það.

Mín kenning er sú að lengi vel einbeittu vinstriflokkarnir sér að þeim sem voru í neðstu lögum samfélagsins, þeim sem höllum fætu stóðu og þurftu mest á aðstoð að halda. Hvernig var hægt að bæta kjör þessa fólks? Hin pólitíska samfélagssýn okkar flestra var á þessum sömu forsendum. En þetta hefur breyst að því leyti að fólk horfir nú ekki síður á það sem er að gerast í efri lögunum. Hjá þeim sem eiga eignirnar, fá bónusana og eru að taka til sín. Kratisminn hefur ekki brugðist við þessari breytingu. Við létum bankakerfið óáreitt í ríkisstjórninni sem tók við völdum eftir hrunið og okkur var ekki fyrirgefið. Við einbeittum okkur að því að varðveita innviðina og gera ekki það sem hægrimenn hefðu gert, til dæmis að fara í frekari einkavæðingu. Þjóðfélag við öfgafullar aðstæður sættir sig hins vegar ekki við það að eitthvað sé ekki gert. Það er við þessu sem menn eins og Donald Trump þykjast vera að bregðast og það er þess vegna sem þeir ná kjöri. Hann setti sig upp á móti valdakerfinu í Washington og fjármálakerfinu á Wall Street. Hillary Clinton tapar af því að menn telja hana of háða fjármálakerfinu og hernaðarmaskínunni. Trump er náttúrlega nátengdur þessu kerfi, en hefur sett sig upp á móti því. Þessa gagnrýni á Clinton og fólk af hennar sauðahúsi verða vinstri menn að taka alvarlega. Þetta er alvöru gagnrýni og að mínu mati réttmæt.

Pólitíkin er öll ófyrirsjáanlegri en hún áður var. Skoðanakannanir hafa ekki sama forspárgildi og þær höfðu. Við erum að fara inn í heim óvissunnar. Þessi heimur býður upp á ýmis tækifæri, sem tæknin og beint lýðræði færa okkur, en einnig ógnir. Við skulum ekki gefa okkur að lýðræði og mannréttindi, sem við töldum að væri í höfn, sé það endilega.“

Samkeppniseftirlitið undarleg stofnun

Ögmundur segir samt fólk ennþá tala í gömlum klisjum. „Menn mega ekki láta hugmyndafræðina ráða of miklu. Menn verða einnig að vera raunsæir. Vera pragmatískir frekar en ídeólógískir. Svo maður taki landbúnaðarmálin sem dæmi, en það segir sína sögu hvernig þau eru rædd á Alþingi. Fyrir þrjátíu til fjörutíu árum hefði fólk spurt hvernig neytendur gætu fengið sem besta og ódýrasta vöru. Umræðan í dag er á allt öðrum nótum. Nú er spurt um hag fyrirtækjanna, réttlæti í samkeppninni og neytandinn er orðinn afgangsstærð. Nú er það þannig að á Íslandi eru 660 kúabændur og þeir mynda með sér samvinnufélag um að dreifa sinni vöru. Sérstök lög undanskilja þetta félag samkeppnislöggjöfunni og þetta fyrirkomulag hefur orðið þess valdandi að á síðast áratug hefur mjólk og mjólkurafurðir lækkað um 20%, fært neytendum tvo milljarða og bændum einn milljarð. Samkeppniseftirlitið, sem er mjög undarleg stofnun og dæmdi Bændasamtökin í sekt fyrir að ræða málefni bænda og var það kallað verðsamráð, hefur svo lagst á MS líka. Ég bíð þess að verkalýðsfélögin verði dæmd sek um verðsamráð fyrir að ræða saman um launakröfur. Það er þetta sem ég meina þegar ég tala um að hugsa á raunhæfum nótum. Viljum við frekar treysta í blindni á markaðinn og að hann leysi allan vanda, eða viljum við búa til kerfi sem gagnast öllum.“

Hann segir að það sem breyst hafi á síðustu fimmtíu eða sextíu árum í íslenskri pólitík snúi að þessum andstæðum, hugsjónum og pragmatisma. „Við sem vorum sósíalistar fyrir fimmtíu árum eða sextíu árum hugsuðum í anda stífrar hugmyndafræði. Við sögðum að það þyrfti að gefa hugmyndum okkar og samfélagssýn tíma til að virka. Hægrimennirnir á þessum tíma höfðu enga biðlund voru pragmatistar og vildu horfa til reynslunnar, það er hverning hugmyndafræðin virkaði í reynd núna. Nú hefur þetta snúist við og við vinstrimenn erum pragmatistarnir sem vísum til reynslunnar af einkavæðingunni til dæmis en hægrimennirnir vilja halda sig við sinn rétttrúnað og vilja sífellt l fá meiri tíma fyrir frjáldshyggjuna til að sanna ágæti sitt þegar reynslan af henni er augljóslega slæm. Þess vegna geld ég meiri varhug en áður við stífri ídeólógískri hugsun. Hún getur nefni lega svipt menn dómgreindinni og því sem kalla má heilbrigða skynsemi.“

Pólitíkinni úthýst

Þegar Ögmundur tók sæti árið 1995 var það í tíð annarrar ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og átti Sjálfstæðisflokkurinn eftir að vera við völd í fjórtán ár í viðbót. „Mér fannst maður vera að gera gagn, í þeim skilningi að maður var að reyna að hafa áhrif þótt í stjórnaandstöðu væri. Það er stundum erfitt að sjá gagnið sem maður gerir þegar maður er að þvo upp eftir matinn, en maður tekur eftir því ef það er ekki gert. Það getur verið erfitt að sjá gagnið sem maður gerir, þegar maður kemur í veg fyrir eitthvað sem hefði gerst ef ekki hefði komið til þín barátta. Þetta var fyrst og fremst varnarbarátta því krafturinn var hjá hægrimönnum og frjálshyggjunni, en hann er þorrinn núna. Kapítalisminn er að ganga frá sér sjálfur, vegna þess að hann er að brjóta hinar siðferðilegu undirstöður sínar. Menn töldu að með mikilli misskiptingu og baráttu frá verkalýðnum og vinstrihreyfingunni væri hægt að hemja kapítalismann. Kapítalistarnir trúðu þessu og urðu værukærir. Fyrir bragðið hefur kapitalisminn fengið að fara sínu fram síðustu ár og áratugi og jafnvel fengið kratana með sér í lið. Þegar það gerist slaka menn á verðinum og hætta að hirða um hina siðferðilegu undirstöðu kerfisins og það er þetta sem er að valda þessari reiði sem maður upplifir í heimi óvissunnar.

Þrátt fyrir að á þessum tíma hafi íslenskt samfélag færst mjög til hægri segir Ögmundur að hann hafi aldrei haft áhyggjur af því að baráttan væri töpuð. Við viljum búa í góðum heimi og við viljum ekki búa í heimi sem er vondur við börnin okkar eða við þá sem standa höllum fæti. Þetta er sammenskt, sama hvar fólk stendur í pólitík, og þess vegna missi ég aldrei vonina . Fólk talaði um tapað stríð þegar við vorum að tala um umhverfið og umhverfisvernd, en það gerir það enginn núna. Samfélagið hefur færst mjög í átt til þeirra sjónarmiða sem við höfum barist fyrir á þessum sviðum og þar er stríðið alls ekki tapað. Þvert á móti það er að vinnast hægt og bítandi.“

Ögmundur segir hægt að ganga of langt í samræðustjórnmálum. „Ég held að menn þurfi líka stundum að velta því fyrir sér hvað er raunverulega pólitískt og hvað er ekki. Ég hef stundum sagt að ef menn vissu ekki í hvaða flokki þeir væru á Alþingi væri hægt að leysa mörg mál í sátt og samlyndi. En það breytir því ekki að sum mál eru, og eiga að vera, pólitísk átakamál. Það á að takast á inni á Alþingi. Ég vil meiri pólitísk átök á Alþingi og menn leysa þessi mál ekki með kaffispjalli, heldur eiga menn að safna liði og takast á. Mér finnst stundum eins og verið sé að úthýsa allri pólitík af Alþingi. Við erum í þjóðfélagi þar sem miklir hagsmunir takast á og við sem sitjum á Alþingi erum að vissu leyti talsmenn þessara hagsmuna og eigum að vera það. Þegar menn eru hættir að rífast um kvótakerfið, fjármálakerfið og skipulag heilbrigðisþjónustunnar, þá er eitthvað mikið að.“

Blómin eiga að hafa lit

Þegar Sovétríkin féllu hafði það ekki teljandi áhrif á íslenska vinstrimenn, enda höfðu þeir fyrir löngu yfirgefið Sovétríkin í huganum, að sögn Ögmundar. „Ég var alla tíð langt til vinstri, og er enn, en ég vil búa í landi þar sem blómin hafa lit, en eru ekki grá. Þar sem fólk má segja það sem það vill segja. Þannig að veruleiki Sovétríkjanna var í mínum huga alltaf óásættanlegur. Mér hefur alltaf þótt lýðræði og frelsi nauðsynleg til að mannsandinn fái að dafna, enda visna öll samfélög þar sem þessa hluti vantar. Á sinn hátt var ákveðin frelsun fólgin í falli Sovétríkjanna, því eftir að þau voru farin var ekki lengur hægt að nota þau til að sverta okkur vinstrimenn. Á sama hátt er ósanngjarnt að segja um þá sem vilja frjálst markaðskerfi, að þeir hljóti þar af leiðandi að vera aðdáendur Donalds Trump. Þetta eigum við ólært í stjórnmálum að leggja ekki allt út á versta veg.“

Kosningar aftur og aftur og aftur

Ég var mjög andvígur þessum kosningum. Ég greiddi atkvæði með því að kosið yrði síðasta vor, en sú tillaga var felld. Fyrst það gerðist hefði átt að bíða til næsta vors, alls ekki kjósa um haust. Mér þótti líka afar sérstakt að sjá Samfylkinguna, sem mældist með afar lítið fylgi í könnunum, berjast fyrir haustkosningum. Ég velti því fyrir mér hvort ekki væri rétt að láta sálfræðinga kanna hvernig á þessu stæði en svarið held ég að sé hræðsla við að þóknast ekki einhverjum óskilgreindum í stað þess að fylgja eigin sannfæringu og dómgreind. Samfylkingin var ekki þarna ein á báti. Mér fannst líka misráðið af öðrum stjórnarandstöðuflokkum að berjast fyrir þessum kosningum, enda hefðum við þurft að undirbúa okkur betur. Ríkisstjórnin fyrir sitt leyti tók svo ákvörðun um kosningar, skjálfandi í hnjáliðum. Nú kenna allir hinum um! Enginn þykist hafa viljað haustkosningar. En nú, þegar ég er búinn að fylgjast með stjórnarmyndunarviðræðunum og umræðunni í þjóðfélaginu, þá hef ég komiist að þeirri niðurstöðu að bæði þurfi að r að gera þjóð og stjórnmálamenn ábyrgari. Ef ekki tekst að mynda stjórn á að kjósa aftur. Og ef stjórnarmyndun tekst ekki eftir þær kosningar á að kjósa aftur og aftur og aftur þar til vitað er hvað er í hverjum poka. Með því móti kynnist þjóðin stjórnmálamönnum sínum betur og öfugt. Þannig getum við hugsanlega þróað okkur inn í betra stjórnmálalíf þar sem orð og efndir fara betur saman.

Ég er rétt að byrja

Ögmundur telur að fylgishrun Samfylkingarinnar eigi sér líklega tvennar rætur. „Annars vegar voru Evrópumálin skrúfa á sál Samfylkingarinnar. Það var alveg sama hvernig mál þróuðust innan Evrópusambandsins - ég nefni Grikklandskrísuna sem dæmi - aldrei breyttist afstaða flokksins og ég held að fólk hafi einfaldlega farið að velta fyrir sér hvað væri á matseðlinum í Brüssel sem skýrði þessa þráhyggju. Eins held ég að flokkurinn hafi gengið full langt í daðri sínu við markaðshyggjuna. Ég held hins vegar að ef félagslega sinnað fólk nær aftur vopnum sínum innan flokksins sé honum við bjargandi. Mér sýnist stefna í að VG og Samfylking gætu sameinast, að þessu gefnu. Ýmislegt hefur breyst frá því að Samfylkingin var stofnuð og við stofnuðum VG og má sem dæmi nefna að Atlantshafsbandalagið er, illu heilli, ekki eins stórt mál innan VG og það var. Þannig að ég held að snertifletirnir á milli flokkanna tveggja séu fleiri en áður. Það þýðir hins vegar að VG gæti að sama skapi færst enn nær skoðanalítilli miðjupólitík. Gerist það kviknar aftur líf til vinstri. Það þarf ekki að vera slæmt ef menn hugsa stórt og vilja stykja félagshyggjupólitík almennt. Sjálfur horfi ég inn á aðrar lendur og stærri en rúmast innan eistakra flokka. Nú ætla ég að snúa mér að tíðarandanum af margefldum krafti. Honum þarf að breyta, alveg eins og Hayek og Hólmsteinn gerðu á sínum tíma. Við höfum haft uppskeru þeirra á borðum okkar undanfarin ár. Nú þarf að plægja hinn pólitíska akur og sá þar fyrir hollari uppskeru. Ég er ekki búinn að gefa upp mína póliísku önd. Tifinningin innra með mér er sú að ég sé rétt að byrja. “

Viðtalið við Ögmund birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins.