Helgi Eysteinsson tekur við sem nýr framkvæmdastjóri Iceland Travel um mánaðamótin. Hann tekur við stöðunni af Ásberg Jónssyni, sem hefur sinnt starfinu tímabundið síðan á vormánuðum, samhliða því að gegna stöðu forstjóra Travel Connect, móðurfélags Iceland Travel.

„Það er gríðarlega spennandi að snúa aftur á heimaslóðir eftir 10 ára fjarveru. Ég sný til baka reynslunni ríkari og er fullur tilhlökkunar að leiða hóp framúrskarandi starfsfólks hjá Iceland Travel til vaxtar og góðra verka,“ segir Helgi Eysteinsson.

Helgi hefur víðtæka og fjölbreytta reynslu úr íslenskri ferðaþjónustu en hann hóf störf sem fararstjóri árið 1996 og hefur síðan þá hefur hann unnið að sölumálum, markaðsfærslu, framkvæmdastjórn og ráðgjöf fyrir hin ýmsu fyrirtæki í íslenskri ferðaþjónustu og tengdum greinum.

Hann hefur einnig gegnt starfi forstöðumanns viðskiptaþróunar hjá Iceland Travel síðan í apríl og starfaði sem framkvæmdastjóri Iceland Travel og VITA á árunum 2008-2013.

„Það er einstaklega ánægjulegt að hafa fengið Helga til liðs við okkur á þessum tímapunkti til að leiða vöxt og viðgang Iceland Travel. Ég er sannfærður að víðtæk reynsla hans og þekking á umhverfi og innviðum íslenskrar ferðaþjónustu gagnist okkur vel í að gera Iceland Travel að enn öflugra fyrirtæki fram veginn,” segir Ásberg Jónsson, forstjóri Travel Connect.