VÍS tryggingar hafa tilkynnt um breytingar á skipuriti félagsins og ráðið tvo stjórnendur í störf framkvæmdastjóra. Breytt skipurit tekur gildi í dag.

Jón Árni Traustason tekur við starfi framkvæmdastjóra fjármála og greininga. Jón Árni var forstöðumaður viðskiptagreindar hjá VÍS og tók sæti sem slíkur í framkvæmdastjórn í maí síðastliðnum. Hann hóf störf hjá félaginu árið 2018 en áður starfaði Jón Árni meðal annars hjá Skeljungi sem forstöðumaður upplýsingatækni og viðskiptagreindar.

Jón Árni er með meistaragráðu (M.Sc) í fjármálastærðfræði frá háskólanum í Uppsala í Svíþjóð og BS-gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands.

Ingólfur Þorsteinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri stafrænna lausna. Ingólfur var áður forstöðumaður upplýsingatæknimála og stafrænnar þróunar hjá VÍS en hann hóf störf hjá félaginu árið 2018. Áður starfaði hann meðal annars hjá Advania sem forstöðumaður hugbúnaðarþróunar og upplýsingastjórnunar.

Ingólfur er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og BS-gráðu í tölvunarfræði frá sama skóla.

Auk þeirra Ingólfs og Jóns Árna sitja nú í framkvæmdastjórn VÍS trygginga Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri, Anna Rós Ívarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs og menningar, Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustu og Sindri Sigurjónsson, framkvæmdastjóri trygginga og tjóna.

„Ingólfur og Jón Árni hafa verið í ábyrgðarhlutverkum í uppbyggingu innviða félagsins á undanförnum árum og því þekki ég styrkleika þeirra vel. Þeir eru báðir reynslumiklir stjórnendur sem fá nú ný hlutverk og áskoranir. Ég tel að með þessu skipulagi verðum við enn betur í stakk búin til að ná markmiðum okkar um framúrskarandi þjónustu, skilvirkni í rekstri og arðsemi,“ segir Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS trygginga.

Nýtt skipurit VÍS.