Kolbeinn Finnsson hefur gengið til liðs við ráðgjafateymi Gott og gilt. Kolbeinn kemur frá Festi þar sem hann starfaði sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs.

Kolbeinn sat í framkvæmdastjórn Festi og forvera þess í rúm 20 ár. Kolbeinn starfaði hjá Festi í hartnær 35 ár en hann hóf fyrst störf á fjármálasviði Olíufélagsins árið 1987.

„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Kolbein til liðs við okkur. Hann býr yfir umfangsmikilli þekkingu og reynslu sem mun styrkja enn frekar þá ráðgjöf og þjónustu sem við bjóðum,“ segir Sigurður Ólafsson, eigandi Gott og gilt.

„Ég er fullur tilhlökkunar að takast á við þau verkefni sem bíða mín hjá Gott og gilt. Ég mun aðallega leggja áherslu á mannauðsmál, breytingastjórnun, vinnuumhverfi og öryggismál starfsmanna. Einnig mun ég leggja áherslu á aðstoð við fyrirtæki við innleiðingu á nýjum ESB sjálfbærnireglugerðum sem taka senn gildi,“ segir Kolbeinn.

Gott og gilt er með teymi sérfræðinga sem veita m.a. ráðgjöf og þjónustu á sviði mannauðsstjórnunar, túlkunar á kjarasamningum og vinnulöggjöf, launagreiningum og undirbúningi fyrirtækja fyrir jafnlaunavottun.