Kolbeinn Hamíðsson og Zuzanna Jadwiga Wrona hafa hafið störf sem grafískir hönnuðir hjá samskiptafélaginu Aton.JL.

Kolbeinn lærði grafíska hönnun í Listaháskóla Íslands og útskrifaðist árið 2019. Frá árinu 2020 starfaði hann hjá hönnunarstúdíóinu E&Co. þar sem hann sinnti verkefnum fyrir viðskiptavini á borð við Listasafn Íslands, Norr11 og Geysi.

Zuzanna útskrifaðist með B.A.-gráðu í grafískri hönnun frá Teesside University í Bretlandi árið 2022 en er jafnframt með diplómagráðu í sama fagi frá Prague College. Hún hefur starfað sem UI og UX hönnuður í Tékklandi og unnið sjálfstætt sem grafískur hönnuður. Þá hefur hún einnig haldið sýningar á verkum sínum, bæði í Tékklandi og á Íslandi.

„Við erum einstaklega stolt af hinni fjölbreyttu reynslu starfsfólks Aton.JL, með ráðningu Kolbeins og Zuzönnu styrkjum við hönnunar- og hugmyndateymi okkar enn frekar. Kolbeinn hefur mikla reynslu í myndrænni mörkun fyrirtækja á íslenskum markaði og Zuzanna er ferskur hönnuður með alþjóðlega reynslu en einnig með sterka rödd sem myndhöfundur,“ segir Sif Jóhannsdóttir, rekstrarstjóri Aton.JL.

Aton.JL veitir ráðgjöf um skipulögð samskipti fyrirtækja og stofnana með greiningu, vöktun, stefnumótun, vörumerkjastjórn, skapandi hugmyndavinnu, almannatengslum og auglýsingagerð.