Lára Ómarsdóttir hefur ákveðið að láta af störfum sem samskiptastjóri Aztiq, fjárfestingarfélags Róberts Wessman. Hún skrifaði undir starfslokasamning við Aztiq í gær.

„Ég gekk til liðs við Aztiq fyrir tveimur árum í stöðu samskiptastjóra félagsins og sé ekki eftir því. Þetta hefur verið ákaflega lærdómsríkur tími, krefjandi, skemmtilegur og gefandi og ég hef verið afar heppin með samstarfsfólk. Nú mun starfið taka ákveðnum breytingum og sýn okkar er um margt ólík. Því var það niðurstaðan að ég myndi stíga frá borði,“ segir Lára í færslu á Facebook.

Lára hóf störf hjá Aztiq í byrjun árs 2021. Hún hafði þar áður starfað sem fréttakona hjá Ríkisútvarpinu í tólf ár, bæði á almennum fréttavöktum og í fréttaskýringaþættinum Kveik. Áður starfaði hún meðal annars sem innkaupastjóri og sem framkvæmdastjóri knattspyrnufélags. Hún hefur skrifað eina bók, Hagsýni og hamingja.

„Hvað nú tekur við hjá mér, veit ég ekki, en ég er sannfærð um að það verði eitthvað mjög spennandi og skemmtilegt.“