Lilja Kristín Birgisdóttir hefur verið ráðin til þess að veita nýrri deild Markaðs- og sjálfbærni hjá Sýn forstöðu‏. Hún mun leiða vörumerkja uppbyggingu Vodafone, Stöðvar 2, Stöð 2 Sport, Vísis, Bylgjunnar, FM957, X977 og Já.

Lilja Kristín hefur síðastliðið ár starfað sem forstöðumaður Markaðs- samskipta og sjálfbærni hjá Vodafone.

Nýja deildin verður miðlæg í skipuriti Sýnar en heyrir undir Sesselíu Birgisdóttur framkvæmdastjóra Vodafone.

„Megin markmið deildarinnar verður að þekkja væntingar viðskiptavina, efla samskipti við uppbyggingu á sterkum vörumerkjum og nýta tæknina til að veita viðskiptavinum framúrskarandi upplifun. Einnig mun nýja deildin vera leiðandi í sjálfbærnivegferð félagsins þar sem að markmið Sýnar er að láta gott af sér leiða og vera ábyrgt fyrirtæki gagnvart umhverfi, stjórnarháttum og samfélaginu,“ segir í fréttatilkynningu.

„Við leggjum ríka áherslu á að einfalda ákvarðanatöku og boðleiðir í rekstri Sýnar og er sameining teyma í markaðsmálum innan Sýnar liður í þeirri vegferð. Fjöldi öflugra vörumerkja eru innan samstæðu Sýnar með það að markmiði alla daga að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu og stuðla að sjálfbærni í rekstri. Við teljum að nýja deildin muni efla ímynd Sýnar enn frekar ásamt því að styrkja vegferð okkar í sjálfbærni, ” segir Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar.

„Ég er full tilhlökkunar að starfa með öflugu teymi sérfræðinga í markaðsmálum, fjarskiptum og fjölmiðlum með það markmið að styrkja markaðsstarf allra vörumerkja Sýnar og auka samvinnu þvert á fyrirtækið,“ segir Lilja Kristín Birgisdóttir.