„Ég kann ágætlega við mig í djúpu lauginni, það kemur mér hratt og vel inn í hlutina,” segir Ástrós Kristinsdóttir sem tók við sem markaðsstjóri Fastus í lok síðasta árs.

Þegar hún tók við stóð félagið í samruna, flutningum í nýjar höfuðstöðvar og endurmörkun þriggja vörumerkja. Ofan á breytingarnar hafði ekki verið starfandi markaðsstjóri hjá félaginu áður. Helsta verkefni Ástrósar verður því að móta og leiða markaðsmál félagsins.

Bakgrunnur Ástrósar liggur fjármálamegin og segist hún upphaflega ekki hafa ætlað út í markaðsmál eða „auglýsingaland“ eins og hún kallar það. „Þetta var hins vegar alveg frábær U-beygja fyrir mig, opnaði huga minn mikið og ýtti mér langt út fyrir þægindarammann.”

Ástrós segist njóta sín vel á ferðalögum, bæði utan- og innanlands. „Fyrir áratug fór ég í heilsárs bakpokaferðalag um heiminn. Það dvelur enn í mér ferðapúki eftir þá reisu. Ég nýt mín mjög vel á ferðalögum, helst einhvers staðar hinu megin á hnettinum, þar sem ég get upplifað allt aðra menningu, matarvenjur og veðráttu. Annars nýt ég mín líka mjög vel í íslenskri náttúru, ég er „lowkey“ göngugarpur og elska góða útivist. Ég reyni að skipuleggja eina stóra göngu á hverju sumri, ég er búin að tækla Fimmvörðuhálsinn, næst er það Laugavegurinn og Hornstrandir.“

Ástrós er tveggja drengja móðir en hún segist mikil fótboltamamma. „Nú hef ég persónulega ekki mikinn áhuga á fótbolta en þeir eru á kafi í sportinu svo að ég er langt leidd í ferlinu að verða "soccer mom". Þeir gefa mér mikla orku og halda mér á tánum. Að vera einstæð og sjálfstæð er líklega það sem hefur komið mér lengst í lífinu. Ég þarf að stóla á sjálfa mig og hef þar af leiðandi skorað mun meira á sjálfa mig með góðum árangri.“

Nánar er rætt við Ástrós í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild hér.