Alvotech tilkynnti í dag að Christina Siniscalchi hafi verið skipuð tímabundið í stöðu framkvæmdastjóra gæðamála. Christina tekur við af Söndru Casaca, sem lætur af starfi sem liður í frekari skipulagsbreytingum sem taka gildi nú um mánaðamótin.

Christina hefur undanfarinn rúman áratug gegnt ýmsum stjórnunarstöðum á sviði gæðamála hjá Alvogen. Hún er nú framkvæmdastjóri gæðamála Alvogen.

„Við þökkum Söndru fyrir frábært framlag. Hún átti þátt í farsælli niðurstöðu úttektar Matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna (FDA) á framleiðsluaðstöðunni í Reykjavík, sem leiddi nýlega til samþykkis fyrir líftæknilyfjahliðstæðu okkar við Humira í Bandaríkjunum,“ sagði Róbert Wessman, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Alvotech.

Christina hefur starfað í bandaríska lyfjaiðnaðinum í aldarfjórðung. Áður en hún gekk til liðs við Norwich Pharmaceuticals, sem nú er hluti af Alvogen, vann hún hjá Mallinckrodt Pharmaceuticals. Hún er með meistaragráðu í lyfjaeftirlits- og gæðamálum frá Temple-háskólanum í Fíladelfíu, Pennsylvaníufylki í Bandaríkjunum og BS-gráðu í iðnaðarlíffræði frá Tækniháskóla Georgíufylkis í Atlanta.

„Það er fagnaðarefni að fá Christinu til liðs við okkur á þessum tímapunkti. Við vinnum nú hörðum höndum að því að auka framleiðslugetuna, til að styðja við vaxandi sókn á alþjóðlega markaði. Þungamiðja starfsins er áhersla á stöðugar úrbætur, öguð vinnubrögð, hámarks gæði og að uppfylla jafnan ströngustu kröfur sem gerðar eru til framleiðslu líftæknilyfja,“ segir Róbert jafnframt.