Ólafur Daníelsson hefur tekið við sem framkvæmdastjóri þróunar- og framkvæmda hjá FSRE. Hann tekur við af Þresti Söring. Þröstur mun verða Ólafi til stuðnings fram að áramótum er hann tekur við starfi á öðrum vettvangi, að því er kemur fram í frétt á vef stofnunarinnar.

Ólafur Daníelsson hefur verið deildarstjóri sérhæfðs húsnæðis frá því í ágúst á þessu ári. Hann kom til starfa hjá FSRE frá Eflu Þar starfaði hann frá árinu 2005, síðast sem svæðisstjóri fyrirtækisins á Suðurlandi.

Ólafur hefur M.Sc. gráðu í byggingarverkfræði og C-vottun IPMA í verkefnastjórnun. Þá hefur hann lokið fjölmörgum námskeiðum í rekstri, stjórnun og byggingatengdum málefnum.

Sviðið þróun og framkvæmdir fer með umsjón fjárfestingarverkefna á þróunar- og framkvæmdastigi, innan og utan eignasafns FSRE, fyrir hönd ríkisins. Sviðið hefur umsjón með nýframkvæmdum bygginga, endurnýjun á núverandi húsnæði ríkisins og uppbyggingu ofanflóðavarna – á stigi hönnunar og framkvæmda.