Óskar Már Alfreðsson hefur hafið störf hjá Fasteignamarkaðnum við Óðinsgötu 4 í Reykjavík. Þetta kemur fram í færslu Óskars á Facebook-síðu sinni og segist hann nú vera kominn í „landsliðið“ með fólkinu sem þar starfar.

Fasteignamarkaðurinn ehf. var stofnaður 2. maí 1982 af fasteignasölunum Jóni Guðmundssyni og Ásdísi Þórðardóttur. Fyrirtækið er því eitt af elstu starfandi fasteignasölum landsins.

„Starfsfólk Fasteignamarkaðarins býr yfir mikilli reynslu og þekkingu á sviði fasteignaviðskipta. Meðal viðskiptavina fyrirtækisins má nefna einstaklinga, fyrirtæki, stofnanir, banka, sparisjóði, hið opinbera og sveitarfélög. Stærstu verkefni fyrirtækisins eru sala á íbúðar- og atvinnuhúsnæði og verðmöt fasteigna. Ef þið viljið gæði og gott verð þá látið þið karlinn selja fyrir ykkur,“ segir Óskar í færslu sinni.

Fyrir ári síðan greindi Viðskiptablaðið frá því að Óskar hafi hætt hjá Domusnova fasteignasölu og selt hlut sinn í félaginu. Þar hafði hann starfað í 11 ár og átti 50% hlut í félaginu í 9 ár.

Domusnova var stofnað árið 2011 en Óskar keypti fyrirtækið tveimur árum seinna ásamt Víði Arnari Kristjánssyni.

„Ég hætti á toppnum, eins og konan mín sagði,“ sagði Óskar á þeim tíma, sem hefur einnig verið þekktur undir viðurnefninu „El Normale“.