Páll Ólafsson hefur verið ráðinn forstöðumaður sérhæfðra hlutabréfa hjá Stefni eftir opið ráðningarferli. Auk þess hefur Stefnir ráðið þau Ólöfu Pétursdóttur og Theodór Blöndal í teymi sérhæfðra hlutabréfa þar sem fyrir voru þeir Eiríkur Ársælsson og Bjarni Ármann Atlason ásamt Jóni Óttari Birgissyni sem gegnir tímabundið forstöðu í teyminu.

Páll Ólafsson kemur til Stefnis frá Century Aluminium, móðurfélagi Norðuráls, þar sem hann hefur leitt viðskiptaþróun og átt sæti í framkvæmdastjórn síðastliðin fjögur ár. Páll hefur einnig stundað eigin atvinnurekstur, stýrt óskráðum eignasöfnum og veitti stefnumarkandi ráðgjöf til fjárfesta í verkefnum bæði innanlands og erlendis. Páll hefur lokið M.Sc. prófi í fjárfestingarstjórnun frá Cass viðskiptaháskólanum í London.

Ólöf Pétursdóttir kemur til Stefnis frá eignastýringarteymi Lífeyrissjóðs Verslunarmanna. Hún hefur þekkingu á fjárfestingarumhverfi sérhæfðra sjóða þar sem hún hefur starfað við fjárfestingar lífeyrissjóðsins í óskráðum verðbréfum. Ólöf starfaði einnig í fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance í tæp 10 ár. Ólöf hefur lokið M.Sc. prófi frá Háskólanum í Reykjavík í fjárfestingarstjórnun.

Theodór Sölvi Blöndal hefur nú störf hjá Stefni í annað skiptið en hann kemur til félagsins frá Alfa Framtaki þar sem hann starfaði í sérhæfðum fjárfestingum. Theodór stýrði áður erlendum fjárfestingum hjá Stefni. Theodór er fjármálaverkfræðingur frá Imperial College í London auk þess sem hann hefur lokið öllum þremur stigum CFA náms. Theodór mun hefja störf í teyminu í lok júní næstkomandi.

„Það er mikill kraftur sem fylgir þeim framúrskarandi einstaklingum sem nú taka til starfa í teymi sérhæfðra hlutabréfa hjá Stefni. Í teyminu verða fimm einstaklingar með mikla reynslu en ekki síður brennandi áhuga á því starfssviði sem Stefnir er leiðandi á. Við hjá Stefni erum stolt af þessum hópi sem ég býð velkomin til starfa á næstu vikum,“ segir Jón Finnbogason, framkvæmdastjóri Stefnis.

„Í rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja felast mörg tækifæri. Markmið Stefnis og SÍA teymisins er að nýta þau tækifæri og vera framúrskarandi þegar kemur að umbreytingu, vexti og árangri í rekstri fyrirtækja. Ég hlakka til að eiga þátt í vexti og árangri sérhæfðra hlutabréfa hjá Stefni með teymi metnaðarfullra einstaklinga,“ segir Páll Ólafsson, forstöðumaður sérhæfðra hlutabréfa hjá Stefni.