Sæmundur Sæmundsson, fyrrverandi forstjóri upplýsingatæknifyrirtækisins Teris, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri þjónustu- og rekstrarsviðs hjá Sjóvá Almennum. Undir Sæmund heyra þjónusta og ráðgjöf, gæðamál, mannauðsmál, rekstrarmál og upplýsingatækni.
Sæmundur vann í sautján ár hjá Teris, var þar af forstjóri í þrettán en hætti í júní síðastliðnum. Fram kemur í tilkynningu frá Sjóvá að hann hafi setið í fjölmörgum séfræðinefndum á vegum fjármálafyrirtækja landsins, þar á meðal verið stjórnarformaður Auðkennis undanfarin fimm ár.
Sæmundur er tölvunarfræðingur að mennt frá University of Texas í Bandaríkjunum og hefur auk þess aflað sér víðtækrar viðbótarmenntunar á umliðnum árum, m.a. á sviði verkefnastjórnunar, hugbúnaðarþróunar, fundarstjórnar og stjórnunar. Sæmundur hefur um langt árabil verið virkur þátttakandi á sviði félagsmála.
Sæmundur er kvæntur Margréti V. Kristjánsdóttur dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík og eiga þau þrjá syni.