„Við erum með öflugt fyrirtækjafólk í kjarnaútibúum Arion hringinn í kringum landið, og það eru metnaðarfullir stjórnendur í hverju rúmi sem ég hlakka mikið til að vinna meira með,” segir Helga Sigurrós Valgeirsdóttir, en hún tók nýlega við sem forstöðumaður smárra og meðalstórra fyrirtækja og bankatrygginga hjá Arion banka.

Hún hefur starfað hjá samstæðunni í um níu ár. „Smá og meðalstór fyrirtæki eru einstaklega mikilvæg hagkerfinu okkar. Tæplega helmingur hagnaðar hagkerfisins verður til í þessum geira og yfir 90% fyrirtækja tilheyra þessum hópi. Mörg eru í stöðugum rekstri og mikilvægir atvinnurekendur, við viljum taka þétt utan um þessi fyrirtæki og bjóða þeim fjölbreytta banka- og tryggingaþjónustu, ásamt því að þjóna eigendum þessara fyrirtækja sem oft eru með flóknar þarfir þegar kemur að fjármálaþjónustu,” bætir Helga við.

Helga á tvær stúlkur á aldrinum 11 og 16 ára með manninum sínum Ævari Rafni Björnssyni lögfræðingi. Þau eiga Golden Retriever hundinn Nóa sem heldur þeim á tánum. „Besti endir á degi er þegar við hjónin tökum göngutúrinn með hundinn. Þar getur lífsgátan oft á tíðum verið leyst í góðu spjalli og við komum inn með hreinni huga eftir að hafa andað að okkur súrefni.“

Hún reynir að blanda hreyfingu saman við góðar samverustundir með vinum og fjölskyldu og hefur tennis komið sterkt inn á undanförnum misserum. „Við vorum í fríi einhvern tímann og það var tennisvöllur á hótelinu. Þá ákváðum við fjölskyldan að fara á tennisnámskeið og ég hef haft mjög gaman af því að sprikla á eftir tennisbolta.“

Nánar er rætt við Helgu í Viðskiptablaðinu sem kom út sl. miðvikudag, 13. mars.