Sigurður Sigurðsson, forstjóri Jarðborana, hefur óskað eftir því að láta af störfum hjá fyrirtækinu. Höskuldur H. Ólafsson, stjórnarformaður Jarðborana, tekur tímabundið við af Sigurði þar til nýr forstjóri hefur verið ráðinn, að því er kemur fram í tilkynningu.

„Kaup nýrra eiganda að félaginu eru nú í höfn og spennandi tímar framundan í uppbyggingu, með frekari vexti og nýjum sóknartækifærum. Á þessum tímapunkti tel ég rétt fyrir mig persónulega að staldra við og huga að öðru. Mér er efst í huga þakklæti til þess samstarfsfólks og viðskiptavina sem ég hef unnið með og kynnst á þeim 7 árum sem ég hef starfað fyrir félagið,“ segir Sigurður.

Í ágúst var tilkynnt um að alþjóðlega borfyrirtækið Archer hefði keypt helmingshlut í Jarðborunum á 8,25 milljónir dala eða sem nemur 1,2 milljörðum króna á gengi dagsins. Seljendur eru félagið SF III í rekstri Stefnis ásamt öðrum innlendum hluthöfum. Jarðboranir eru nú í jafnri eigu Archer og fjárfestingarfélagsins Kaldbaks, dótturfélags Samherja.

„Félagið þakkar Sigurði afar farsæl störf á liðnum árum og óskar honum velfarnaðar. Jarðboranir eru leiðandi borfyririrtæki á heimsvísu og er í dag með jarðhita borverkefni á Íslandi, Nýja Sjálandi og Dominca,“ segir Höskuldur H. Ólafsson, stjórnarfomaður Jarðborana.