Einar Hannesson tók í byrjun mánaðar við sem framkvæmdastjóri Sólar, eins stærsta ræstingarfyrirtæki landsins. Einar segir fyrstu dagana í nýja starfinu aðallega hafa snúist um að koma sér inn í rekstur félagsins og kynnast nýju samstarfsfólki.

Einar Hannesson tók í byrjun mánaðar við sem framkvæmdastjóri Sólar, eins stærsta ræstingarfyrirtæki landsins. Einar segir fyrstu dagana í nýja starfinu aðallega hafa snúist um að koma sér inn í rekstur félagsins og kynnast nýju samstarfsfólki.

„Það starfa vel yfir fjögur hundruð manns hjá fyrirtækinu og það velti rúmum þremur milljörðum króna í fyrra, svo þetta er stórt og öflugt fyrirtæki. Starfsemi þess hentar mínu áhugasviði – sem er almennur rekstur, mannauðsmál og að ná fram sem mestri skilvirkni í rekstri – mjög vel. Ég er að taka við fyrirtæki sem hefur verið vel rekið og vel vandað til allra verka.“

Áður starfaði Einar sem framkvæmdastjóri Fastus í um sex ár. „Fastus er ólíkt Sólar að því leyti að það byggir tekjur sínar að langmestu leyti á innflutningi og sölu, á meðan Sólar er fyrst og fremst að selja þjónustu. Fastus var aftur á móti statt á svipuðum stað í lífkúrfunni þegar ég tók við sem framkvæmdastjóri þar og Sólar er núna. Fyrirtækið hafði vaxið hratt og varað þróast úr því að vera tiltölulega lítið eða meðalstórt fyrirtæki, þar sem mætti segja að allir hafi gengið í öll störf, yfir í að verða stórt fyrirtæki þar sem unnið var að því að koma meira skipulagi á vinnu og verkferla. Það hafði verið unnið mjög gott verk hjá Fastus í að koma þessari þróun  af stað áður en ég hóf störf þar og það sama gildir nú hjá Sólar.“

Að mati Einars er ekkert sem toppar það að skíða í hreinu fjallalofti. „Það skemmtilegasta sem ég geri er að fara á skíði. Síðustu árin höfum við hjónin að mestu skíðað erlendis en þegar krakkarnir voru yngri og nenntu að koma með okkur vorum við mjög dugleg að fara á skíði á Íslandi. Ég er ekkert sérstaklega góður skíðamaður en samt nett klikkaður og finnst fátt skemmtilegra en að finna adrenalínið flæða í köldu og hreinu fjallalofti. Þegar ég verð 85 ára ætla ég að vera síupptekinn á skíðum út um allar trissur,“ segir hann og hlær.