Sólrún Hjaltested hefur verið ráðin mannauðsstjóri Terra umhverfisþjónustu og Hildur Emilsdóttir sem verkefnastjóri stefnumótunar og umbóta félagsins. Báðar hafa þær hafið störf og eru í teymi sjálfbærrar menningar og stjórnarhátta sem er stoðsvið hjá Terra umhverfisþjónustu auk þess að sinna dótturfélögum þess.

Sólrún Hjaltested mun sem mannauðsstjóri leiða þróun í mannauðsmálum félagsins. Sólrún kemur til Terra umhverfisþjónustu frá Bestseller en þar starfaði hún sem mannauðsstjóri síðastliðin fimm ár. Þar áður var Sólrún hjá Vodafone en hún starfaði þar sem fræðslustjóri einnig í um fimm ár.

Frá árinu 2004 til 2011 starfaði hún hjá Svæðisskrifstofu Reykjaness um málefni fatlaðra (SMFR), ýmist sem ráðgjafi í fræðslu- og gæðamálum, sviðsstjóri fræðslu- og þróunarsviðs eða sviðsstjóri starfsmannasviðs. Sólrún er með BA próf í sálfræði og MS próf í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands.

„Það er mikil þróun framundan á mörgum sviðum hjá fyrirtækinu, þar með talið í mannauðsmálum. Ég hlakka mikið til að takast á við þetta spennandi verkefni. Maður finnur fyrir miklum krafti hérna innanhúss og hér starfar flott fólk sem verður gaman að vinna með. Hlutverk fyrirtækisins er mikilvægt og það hefur góðan tilgang. Þvílík lukka að fá tækifæri til að vinna í slíku umhverfi og fá að leiða þróun í mannauðsmálum,“ segir Sólrún.

Hildur Emilsdóttir mun sem verkefnastjóri stefnumótunar og umbóta leiða nýja stefnu félagsins og umbótarverkefni ásamt því að móta nýjar áherslur í lausna- og árangursmiðaðri menningu hjá félaginu.

Hildur kemur frá Advania þar sem hún starfaði sem verkefnastjóri í innleiðingu fjárhagskerfa. Þar á undan var hún í níu ár hjá Coca-Cola Europacific partners (áður Vífilfell) þar sem hún starfaði sem sérfræðingur á vörustjórnunarsviði og verkefnastýrði m.a. vörunýjungum áfengra og óáfengra drykkja. Hildur er viðskiptafræðingur með markaðsáherslur frá Háskólanum á Bifröst og lauk á síðastliðnu vori meistaranámi í verkefnastjórnun (MPM) frá Háskólanum í Reykjavík.

„Það er mikill heiður að fá að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem er í gangi hjá Terra umhverfisþjónustu. Það var rosa vel tekið á móti mér og ég upplifi mikla stemmningu. Það er spennandi að vinna hjá fyrirtæki í umhverfismálum þar sem mikill vöxtur er framunda. Ég hef mikinn áhuga á að minnka sóun og skapa vettvang fyrir allt starfsfólk til að koma ábendingum á framfæri um hvað betur má fara í vinnuumhverfinu og að við drögum lærdóm af þeim mistökum sem við gerum. Hér er frábært fólk og ég hlakka til að fá að leiða stefnumótun fyrirtækisins og að innleiða verkefnamenningu,“ segir Hildur.