Tveir nýir stjórnarmeðlimir voru kosnir í stjórn Emblu Medical hf. (áður Össur hf.) á aðalfundi félagsins sem fór fram í dag.

Það eru þær Tina Abild Olesen, framkvæmdastjóri hjá lyfjafyrirtækinu Novo Nordisk og Caroline Vagner Rosenstand, forstjóri lækningatækjaframleiðandans Atos Medical, dótturfélags Coloplast.

Hluthafar samþykktu einnig tillögu um að móðurfélagi Össurar taki upp nafnið Embla Medical hf. Þetta felur í sér að vörumerkin Össur, College Park, Fior & Gentz og ForMotion starfa framvegis undir hatti Emblu Medical.

Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, sem setið hefur í stjórn Össurar frá árinu 2013, sóttist ekki eftir endurkjöri. Aðrir í stjórn félagsins eru Niels Jacobsen, stjórnarformaður, Svafa Grönfeldt, varaformaður, Alberto Esquenazi og Arne Boye Nielsen.