119-föld eftirspurn var eftir hlutabréfum sádi-arabíska heilbrigðisfyrirtækisins Fakeeh Care Group í nýloknu frumútboði félagsins þar í landi. Fjárfestar skiluðu inn pöntunum upp á alls 91 milljarða dala í frumútboðinu sem er talið verða það stærsta í konungsveldinu á þessu ári. Bloomberg greinir frá.

Félagið safnaði alls 763 milljónum dala í nýtt hlutafé í hlutafjárútboðinu. Í kjölfar útboðsins er félagið metið á rúmlega 3,5 milljarða dala.

Abu Dhabi Investment Authority (ADIA) og Olayan Saudi Investment Co. voru hornsteinsfjárfestar í útboðinu með áskriftir fyrir rúmlega einni milljón hluta og 1,96 milljónum hluta. Útboðsgengi nam rúmlega 15 dölum á hlut.

Fakeeh Care Group var stofnað í Jeddah árið 1978 og rekur í dag fjóra spítala með alls 835 rúmum og fimm heilsugæslustöðvar. Félagið hefur sett sér metnaðarfull vaxtarmarkmið sem fela í sér að spítalarnir verði alls sjö með 1.675 rúm og heilsugæslustöðvarnar níu árið 2028. Til stendur að nýta þá fjármuni sem söfnuðust í útboðinu til að fjárfesta í umræddri uppbyggingu.

Vaxtamarkmiðin eiga rætur sínar að rekja til örrar fólksfjölgunar í Sádí-Arabíu en reiknað er með að íbúar landsins verði orðnir um 40 milljónir árið 2030.

Fakeeh Group er meðal fjögurra félaga í Sádi-Arabíu sem munu á næstu vikum klára skráningu á markað. Kauphöllin í Sádi-Arabíu reiknar með annríki á næstunni en samkvæmt upplýsingum þaðan eru rúmur tugur félaga sem bíða á hliðarlínunni.