Malbikstöðin ehf. hagnaðist um 737 milljónir króna á síðasta ári og jókst hagnaðurinn um 180 milljónir milli ára. Velta félagsins jókst um 58% milli áranna 2021 og 2022 og nam 3,3 milljörðum króna í fyrra.

Ársverkum félagsins fjölgaði talsvert á milli ára í takt við aukið umfang, og nam laun og annar starfsmannakostnaður félagsins 690 milljónum í fyrra, samanborið við 400 milljónir árið áður.

„Umfang starfsemi félagsins jókst mikið frá fyrra ári en velta félagsins jókst um 58% milli áranna 2021 og 2022. Aukningin fylgir í kjölfar mikilla fjárfestinga í samkynja rekstrareiningum sem hafa verið sameinaðar félaginu ásamt því sem nýfjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum námu 840 milljónum króna á árinu 2022,“ segir í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins.

„Í ljósi mikils innri og ytri vaxtar félagsins munu stjórnendur leggja áherslu á að samþætta reksturinn og styrkja innri verkferla til að geta sem best nýtt sér frekari tækifæri í vegaframkvæmdum og malbikun á komandi árum.“

Eignir félagsins námu 2,7 milljörðum í árslok og var eigið fé 1,9 milljarðar króna. Sól í myrkri ehf., félag í 100% eigu Vilhjálms Þórs Matthíassonar, á alla hluti í Malbikstöðinni.

Malbikstöðin ehf.

2022 2021
Rekstrartekjur 3.294 2.081
Hagnaður 737 554
Eignir 2.685 2.148
Eigið fé 1.944 1.508
Lykiltölur í milljónum króna.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast hana hér.