Dineout, markaðstorg sem býður m.a. upp á borðabókana-, matarpantana- og kassakerfislausnir fyrir veitingastaði og hótel, hagnaðist um 47 milljónir króna á síðasta ári og rúmlega tvöfaldaði hagnaðinn frá fyrra ári.

Dineout, markaðstorg sem býður m.a. upp á borðabókana-, matarpantana- og kassakerfislausnir fyrir veitingastaði og hótel, hagnaðist um 47 milljónir króna á síðasta ári og rúmlega tvöfaldaði hagnaðinn frá fyrra ári.

Rekstrartekjur námu 179 milljónum króna í fyrra og jukust um 152% milli ára. Eignir félagsins námu 286 milljónum í lok síðasta árs, eigið fé 250 milljónum og skuldir 36 milljónum. Í ársreikningi kemur fram að á síðasta ári hafi rúmlega 160 milljónir verið lagðar inn í félagið í formi nýs hlutafjár.

Inga Tinna Sigurðardóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Dineout, var um síðustu áramót stærsti hluthafi félagsins með tæplega þriðjungshlut. Teya, sem áður hét Salt Pay, átti 20% hlut en í mars árið 2022 var greint frá innkomu fjártæknifélagsins í hluthafahópinn.

Magnús Björn Sigurðsson, annar stofnenda og bróðir Ingu Tinnu, átti 23% hlut í félaginu og Viktor Blöndal Pálsson 17% hlut en hann fór úr hluthafahópnum í byrjun yfirstandandi árs. Loks átti miðsölufyrirtækið Tix 8% hlut.

Dineout hefur haldið áfram að vaxa á þessu ári en í samtali við Viðskiptablaðið segir Inga Tinna að það sem af er ári hafi rekstrartekjur félagsins tvöfaldast miðað við sama tímabil í fyrra og stefni því í að fara yfir 300 milljónir.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.

Magnús Björn Sigurðsson er næst stærsti hluthafi Dineout og stýrir tæknimálum félagsins.
© Aðsend mynd (AÐSEND)