Nú er aðalfundarhrina skráðra félaga í Kauphöllinni þar sem hvert félagið á fætur öðru kynnir afkomu síðastliðins árs.

Fyrirhugað er að greiða hluthöfum félaga á aðalmarkaði um 70 milljarða króna á þessu ári. Þar fara fremst í flokki Síminn, Eimskip, stóru viðskiptabankarnir og útgerðarfélögin Brim og Síldarvinnslan. Til viðbótar nema endurkaup rúmum sex milljörðum króna það sem af er ári, sem er um fimmtungur af öllum kaupum fyrirtækja á eigin bréfum í fyrra.

Hagar og Ölgerðin eiga enn eftir að birta ársuppgjör fyrir síðasta rekstrarár og gætu því heildararðgreiðslur á árinu orðið enn meiri, ef aðalfundir félaganna samþykkja að greiða arð til hluthafa sinna.

Hluthafar Símans fá 50 milljarða

Aðalfundur Símans samþykkti í byrjun mánaðar að 16,2 milljarðar króna yrðu greiddir til hluthafa, í formi 500 milljón króna arðgreiðslna og 15,7 milljarða króna lækkunar hlutafjár. 31,5 milljarðar króna voru greiddir til hluthafa Símans í lok árs 2022 í formi lækkunar hlutafjár í kjölfar sölunnar á Mílu.

Heildararðgreiðslur til hluthafa Símans eru því að nálgast 50 milljarða króna á nokkurra mánaða tímabili.  Stoðir eru stærsti hluthafi Símans með 15,9% hlut.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í dag, fimmtudaginn 30. mars. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.