Kaupum Actavis plc á breska samheitalyfjafyrirtækinu Auden Mckenzie er lokið. Með kaupunum er Actavis orðinn stærsti framleiðandi samheitalyfja í Bretlandi og þriðja stærsta alhiða lyfjafyrirtækið þar í landi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Actavis.
Í tilkynningunni segir að Actavis greiði fyrir kaupin u.þ.b. 306 milljónir punda í reiðufé, eða sem samsvarar um 63 milljörðum króna, auk þess að greiða hagnaðarhlutdeild af framlegð næstu tveggja ára af einni af vörum félagsins. Markmið Actavis sé að verða leiðandi á lykilmörkuðum sínum og í þeim lyfjaflokkum sem fyrirtækið sérhæfir sig í, bæði á sviði samheitalyfja og frumlyfja. Kaupin á Auden Mckenzie sýni áframhaldandi áherslu Actavis á samheitalyfjamarkaðinn.
Actavis hefur nú starsemi í 100 löndum, yfir 30.000 starfsmenn og áætlaða ársveltu upp á 23 milljarða dollara eða sem nemur um 3.100 milljörðum króna. Til samanburðar var landsframleiðsla Íslands um 2.000 milljarðar á síðasta ári. Um 700 manns starfa hjá starfsstöð Actavis í Hafnarfirði.