Þýski tískurisinn Adidas hefur náð sér aftur á strik eftir stormasamt samband við bandaríska rapparann Kanye West. Fyrirtækið, sem seldi hina svokölluðu Yeezy-skó með rapparanum, segist nú búast við allt að 700 milljóna evra hagnaði fyrir árið 2024.

Rekstrarhagnaður Adidas nam 336 milljónum evra á fyrsta ársfjórðungi þessa árs samanborið við 60 milljónir evra árið áður.

Adidas sleit tengsl sín við söngvarann í nóvember árið 2022 vegna ummæla sem hann lét falla á samfélagsmiðlum í garð gyðinga. Á síðasta ári hét það því að gefa hluta af ágóða sínum til góðgerðarmála sem vinna gegn hatri.

Fyrstu Yeezy-skórnir komu á markað árið 2015 og fimm árum síðar sagði Forbes að skórnir væru ein besta smásöluvara aldarinnar. Því samstarfi er þó lokið og segir Adidas að það muni selja restina af Yeezy-skónum sem til eru á lager á kostnaðarverði.

Restin af birgðunum af Yeezy-skónum verða líklega seld fyrir um 200 milljónir evra síðar á þessu ári en þó án frekari hagnaðar.