Sósíalistar í Katalóníu, undir stjórn Salvador Illa, fyrrum heilbrigðisráðherra Spánar, stóðu uppi sem sigurvegarar í svæðiskosningunum í Katalóníu sem haldnar voru síðastliðinn sunnudag, 12. maí.

Flokkurinn bætti við sig níu þingsætum frá síðasta kjörtímabili, úr 33 í 42. Salvador Illa fagnaði úrslitunum vel og sagði í ræðu sinni að hann ætlaði sér að verða næsti forseti Katalóníu.

Aðskilnaðarsinnar í Katalóníu, sem hafa verið við völd síðastliðinn áratug, biðu mikinn ósigur í kosningunum. Fjórflokkasamband aðskilnaðarsinna, leitt af Carles Puigdemont, leiðtoga flokksins Junts (Saman), hefði þurft 68 þingsæti hið minnsta til að halda meirihluta, en hlaut einungis 61 sæti.

Þrátt fyrir sigur Sósíalista verður það mikil áskorun fyrir Illa að mynda stjórn, enda margir flokkar á þingi og fjórir þeirra aðskilnaðarsinnar. Líklega mun hann annaðhvort þurfa stuðning aðskilnaðarsinna í ERC eða öfgavinstriflokksins Comuns Sumar, sem var stofnaður fyrir kosningarnar og hlaut sex þingsæti í kosningunum.