Pálmar Gíslason, sem starfar við gagnagreiningar hjá CCP, birti á dögunum athyglisverða greiningu á LinkedIn síðu sinni þar sem hann skoðaði fasteignamarkaðinn í samhengi við greiðslubyrði lána. Vegna lækkandi vaxtabyrðar hefur fasteignamarkaðurinn opnast fyrir fjölda fólks sem réð áður ekki við greiðslubyrði lána. Að sögn Pálmars er þó óvíst að aukning framboðs ein og sér myndi breyta stöðunni á markaði.

„Það væri auðvitað hægt að leysa stöðuna á fasteignamarkaði með því að byggja allt of mikið en þá myndi fólk greiða minna í húsnæðislán. Ég er þeirrar skoðunar að fólk sé tilbúið að greiða ákveðna upphæð í húsnæði og ef sú upphæð lækkar er fólk jafnvel frekar tilbúið að kaupa sér annað húsnæði til að leigja það út," segir Pálmar.

Í grein sinni bendir hann á að afborgunarhlutfall vísitölufjölskyldu í fjögurra herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu sem hlutfall af launum hafi verið nokkuð stöðugt í kringum 27% fyrir óverðtryggð lán og í kringum 18% fyrir verðtryggð lán árin fyrir kórónuveirufaraldurinn. Hlutfallið hafi hins vegar lækkað snarlega í kjölfar vaxtalækkana Seðlabankans og þrátt fyrir nýlegar vaxtahækkanir er hlutfallið enn um 22% fyrir óverðtryggð lán og 16% fyrir verðtryggð lán.

Samkvæmt greiningu Pálmars þyrfti fasteignaverð að hækka um 22% umfram launahækkanir eða vextir að hækka um tæplega 145 punkta til að ná fyrra jafnvægi á afborgunarhlutfalli óverðtryggðra lána. Til að ná fyrra jafnvægi í verðtryggðum lánum þyrfti fasteignaverð að hækka um tæp 15% umfram launahækkanir eða vextir um tæplega 83 punkta.

„Ef litið er alfarið á þessa greiningu væri ekki hægt að tala um bólu á fasteignamarkaði en svo er hægt að velta því fyrir sér, ef vextir hækka um 2 prósent - er þá orðin bóla á markaði?" segir Pálmar. Hann telur jafnframt að hækki vextir upp fyrir ákveðið mark á óverðtryggðum lánum muni hluti fólks færa sig aftur yfir í verðtryggð lán þar sem það ráði ekki lengur við vaxtabyrðina.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .