Bæði lagaskrifstofa Alþingis og forsætisnefnd hafa synjað Viðskiptablaðinu um aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda vegna eftirlits með Lindarhvoli ehf. Blaðið hefur óskað eftir því að forsætisnefnd endurupptaki málið þar sem brestir hafi verið á málsmeðferð þess.

Beiðni blaðsins byggist á upplýsingalögum en með breytingum á þeim, sem tóku gildi 2019, var stjórnsýsla Alþingis sett undir gildissvið þeirra. Beiðnin var send síðasta sumar en í júlí hafnaði lagaskrifstofa þingsins beiðninni á þeim grunni að lög um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga girtu fyrir afhendingu skjalsins.

Þegar upplýsingalögunum var breytt þótti ekki tækt að framkvæmdarvaldið, það er úrskurðarnefnd um upplýsingamál (ÚNU), myndi endurskoða ákvarðanir teknar af löggjafanum Alþingi. Af þeim sökum eru ákvarðanir skrifstofu þingsins kæranlegar til forsætisnefndar þingsins. Samkvæmt reglum forsætisnefndar um aðgang að gögnum um stjórnsýslu Alþingis „skal [við úrlausn einstakra mála] líta til framkvæmdar ÚNU“.

Önnur meðferð en hjá ÚNU

Undir meðferð málsins fyrir forsætisnefnd var ríkisendurskoðanda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum um hvort aðgangur skyldi veittur að téðri greinargerð. Í umsögn hans kom fram að í greinargerðinni væru „því miður staðreyndavillur auk upplýsinga um trúnaðarmál“ og ef aðgangur yrði veittur að henni, ýmist í heild eða að hluta, myndu „standa eftir ýmsar missagnir sem gætu, ef birtar yrðu opinberlega, valdið íslenska ríkinu bótaskyldu og skaðað hagsmuni þess með öðrum hætti“.

Í úrskurði forsætisnefndar segir að umrædd greinargerð hafi, eftir að hún var send Alþingi, verið send stjórn Lindarhvols til umsagnar. Af þeim sökum hefði skjalið stöðu „annars gagns“ í máli sem ríkisendurskoðandi hyggst kynna Alþingi að lokinni könnun sinni í skilningi laga um ríkisendurskoðun og endurskoðun ríkisreikninga og væri þar með undanþegin afhendingarskyldu. Rétt er að geta þess að í september 2019 kvað ÚNU upp úrskurð þar sem aðgangi að greinargerðinni var hafnað á sama grunni en þess getið að undanþágan ætti ekki við „þegar lokaeintak greinargerðarinnar hefur verið afhent Alþingi“. Skýrslan um Lindarhvol var afhent þinginu í maí 2020.

Málsmeðferð forsætisnefndar er um margt áhugaverð í samanburði við málsmeðferð fyrir ÚNU. Hjá síðarnefnda aðilanum er afhendingarskyldum aðila, sem tók hina kærðu ákvörðun, gefinn kostur á að koma á framfæri andmælum við kærunni. Kærandi fær síðan að koma athugasemdum að áður en úrskurður er kveðinn upp. Þá er kveðið á um að skylt sé að afhenda ÚNU umþrætt skjal eða gagn við meðferð málsins. Unnt er að auðkenna trúnaðargögn sérstaklega við meðferð málsins.

Hjá forsætisnefnd var málsmeðferðin önnur. Sem fyrr segir var ríkisendurskoðanda veittur kostur á að koma athugasemdum að en ekki lagaskrifstofu þingsins, þrátt fyrir að það hafi verið lagaskrifstofan sem tók upphaflega ákvörðun. Fundargerðir forsætisnefndar bera á móti með sér að forstöðumaður lagaskrifstofunnar hafi setið fundi nefndarinnar og útskýrt afstöðu skrifstofunnar fyrir henni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .