Samkvæmt áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur styrk og samræmd stjórn efnahagsmála dregið úr ójafnvægi innanlands og gagnvart útlöndum.
Hins vegar þegar kemur að opinberum fjármálum er frekari aðgerða þörf til að ná fram því aðhaldi sem fyrirhugað er til meðallangs tíma. Sendinefndin bendir einnig ríkisstjórninni á að ófyrirséð útgjöld í aðdraganda þingkosninga á næsta ári muni ýta undir verðbólgu.
Sendinefndin hefur átt viðræður við íslensk stjórnvöld og aðra hagaðila síðustu tvær vikur. Viðræðurnar eru hluti af árlegri úttekt sjóðsins á stöðu og horfum í íslensku atvinnulífi (e. Article IV Consultation). Hliðstæðar úttektir eru gerðar á hverju ári í öllum aðildarlöndum sjóðsins. Formaður sendinefndar sjóðsins að þessu sinni var Magnus Saxegaard.
„Heilt á litið eru horfur góðar og áhætta í jafnvægi. Nú þegar hægir á í hagkerfinu ætti efnahagsstefnan að tryggja mjúka lendingu, ná verðbólgu niður í markmið og auka smám saman varasjóði til að auka viðnámsþrótt gegn áföllum í framtíðinni. Áframhaldandi árangur í að innleiða helstu ráðleggingar sjóðsins úr úttekt á fjármálakerfinu sem lauk 2023 (FSAP) er mikilvægur til að styðja við fjármálastöðugleika,“ segir í skýrslunni.
Að mati AGS ættu kerfisumbætur að miða að því að hlúa að nýsköpun og viðhalda árangri í að auka fjölbreytni í íslensku efnahagslífi ásamt því að hraða grænni umbreytingu.
Í skýrslunni segir að samræmd aðhaldssamari stjórn efnahagsmála hafi náð að draga úr innlendu og erlendu ójafnvægi í þjóðarbúinu sem skapaðist í kjölfar heimsfaraldursins.
Umsvif í þjóðarbúinu voru töluvert yfir framleiðslugetu árið 2022 og snemma árs 2023 og var þróttmikill 4,1% hagvöxtur árið 2023.
„Nokkuð dró hins vegar úr vextinum undir árslok og framleiðsluspenna hefur nánast horfið þökk sé háum vöxtum og aðhaldssamri ríkisfjármálastefnu sem hafa hægt á neyslu og fjárfestingu samhliða því að auka sparnað heimila,“ segir í skýrslunni.
Verðbólga um 4,8% í árslok
Samkvæmt spá AGS er búist við því að áframhaldandi aðhaldssöm efnahagsstefna muni draga úr hagvexti til skemmri tíma en horfur til meðallangs tíma eru áfram hagstæðar.
Búist er við að hagvöxtur minnki í 1,7% árið 2024 vegna minni innlendrar eftirspurnar og hægari vaxtar neyslu ferðamanna, en aukist svo í 2% árið 2025 samhliða losun á peningalegu aðhaldi og nokkurs bata í vexti einkaneyslu og fjárfestingar.
AGS spáir því að verðbólga hjaðni í 4,8% í árslok 2024 og 2,8% í árslok 2025 samhliða veikari innlendri eftirspurn, hófsamri hækkun innflutningsverðs og minni hækkun húsnæðisverðs.
„Hagvaxtarhorfur til meðallangs tíma eru áfram hagstæðar þar sem vænst er að aukin nýsköpun muni auka framleiðni og að innflutningur vinnuafls haldi áfram að styðja við vaxandi atvinnu. Áhætta hvað varðar efnahagshorfur er heilt yfir í jafnvægi.“
Að mati AGS gæti aukin eldvirkni á Reykjanesskaga valdið frekari efnahagslegum skaða og krafist aukins stuðnings hins opinbera. Meiri launahækkanir en búist er við og hærra innflutningsverð vegna ótímabærrar losunar á peningalegu aðhaldi í þróuðum ríkjum gæti leitt til þrálátari verðbólgu.
„Meiri launahækkanir en búist er við og hærra innflutningsverð vegna ótímabærrar losunar á peningalegu aðhaldi í þróuðum ríkjum gæti leitt til þrálátari verðbólgu. Ófyrirséð aukning ríkisútgjalda í aðdraganda þingkosninga árið 2025 gæti tafið aðlögun ríkisfjármála og ýtt undir verðbólgu,“ segir í skýrslunni.
AGS beinir því til stjórnvalda að efnahagsstefnan ætti að beinast að því að tryggja mjúka lendingu, ná verðbólgu niður í markmið og byggja aftur upp viðnámsþrótt í efnahagslífinu.
Vinna þarf áfram að því að styrkja fjármálakerfið til að varðveita fjármálastöðugleika en kerfisumbætur ættu að auka enn frekar fjölbreytni efnahagslífsins og hraða grænni umbreytingu til að styðja við langtímahagvöxt.
Þegar kemur að opinberum fjármálum segir að frekari aðgerða sé þörf til að byggja upp viðnámsþrótt.
„Markmið stjórnvalda í opinberum fjármálum frá og með árinu 2024 eru viðeigandi, en líklega er frekari aðgerða þörf til að ná fram því aðhaldi sem fyrirhugað er til meðallangs tíma. Hlutlaust aðhald opinberra fjármála, sem spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gerir ráð fyrir á þessu ári, er réttmætt í ljósi tímabundins útgjaldaþrýstings vegna nýlegrar eldvirkni og minnkandi þenslu í hagkerfinu,“ segir í skýrslunni.
AGS beinir því enn fremur til stjórnvalda að öllum tekjum umfram spár ætti að verja í opinberan sparnað til að styðja við fyrirhugað aðhald í opinberum fjármálum.
„Metnaðarfull markmið stjórnvalda í fjármálaáætlun áranna 2025-29 samræmast stigvaxandi svigrúmi opinberra fjármála til að búa sig undir framtíðaráföll. Til að ná settum markmiðum gæti þurft aðhaldsráðstafanir sem nema 1,0–1,5 prósentum af landsframleiðslu á næstu fimm árum, sumar þeirra eru þegar í fjármálaáætlun en hafa hvorki verið skilgreindar né framkvæmdar. Í þessu sambandi gætu stjórnvöld íhugað: (i) að fækka vörum og þjónustu sem skattlögð eru í lægra þrepi virðisaukaskatts, (ii) að draga úr skattastyrkjum, (iii) að auka skattlagningu á söluhagnað af fasteignum sem fólk á ekki lögheimili í (e. second homes) og fasteignum sem keyptar eru í fjárfestingarskyni (e. investment properties), og (iv) að snúa við aukningu raunútgjaldavaxtar miðað við fjármálaáætlun 2023-27,“ segir í skýrslunni.