Verslunarkeðjan Aldi hefur greint frá metsölu í Bretlandi og segist hafa fengið til sín rúmlega milljón fleiri viðskiptavini undanfarið ár.

Aldi rekur tæplega þúsund verslanir víða um Bretland og er þekkt fyrir mjög lágt vöruverð. Aukningin virðist sýna að íbúar á Bretlandi séu að breyta verslunarhefðum sínum til að koma til móts við verðbólgu.

Sala fyrirtækisins var tæplega 15,5 milljarðar punda árið 2022, sem er 2 milljarða punda aukning frá árinu á undan og nýtt sölumet hjá fyrirtækinu sem hefur verið starfrækt í Bretlandi í 33 ár. Hagnaður Aldi hefur einnig þrefaldast úr 60 milljónum punda í 179 milljónir punda á einu ári.

Giles Hurley, framkvæmdastjóri Aldi á Bretlandi og Írlandi, segir að neytendur hafi umturnað verslunarhefðum sínum vegna aukinnar framfærslukostnaðar. „Þó að verðbólgan sé að hjaðna finna heimilin engu að síður fyrir hærri framfærslukostnaði. Það er þess vegna sem verslunarhefðir Breta eru allt öðruvísi en þær voru fyrir 18 mánuðum síðan.“

Verslanir Aldi hafa verið þekktar sem „auka“ verslanir, þar sem viðskiptavinir fara til að kaupa auka vörur á ódýrara verði en úrvalið í Aldi er mun minna en finnst í helstu verslunarkeðjum landsins. Ein Aldi verslun býður upp á að meðaltali 2.000 vörur samanborið við þær 40.000 sem finnast í verslunum eins og Tesco.

Fyrirtækið segist nú áætla að opna 18 verslanir til viðbótar víðs vegar um Bretland á þessu ári sem kemur til með að skapa í kringum 6.000 ný störf.